Engin tilfelli af E. coli greindust í dag en saursýni frá fjórum einstaklingum voru rannsökuð í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Embætti landlæknis sem birtist í dag. Greindum smitum hefur fækkað verulega síðustu daga.

Vonast er til þess að faraldrinum sé að linna en enginn hefur greinst með smit síðan að eitt barn greindist með veiruna á föstudaginn. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði þó í samtali við Fréttablaðið í dag að rannsóknir á hugsanlegum smitleiðum í Efstadal stæðu enn yfir. Þannig er verið að taka ræktanir víða frá staðnum og verið að skoða fleiri dýr til að kortleggja smitleiðirnar.

„Ég vona svo sannarlega að þessu sé að linna,“ sagði Þórólfur. „En það náttúrulega verður að hafa í huga að aðsókn á staðinn hefur minnkað verulega og það getur vel verið að fólk sé að fara síður með börn þangað og svona. Þannig að það út af fyrir sig hjálpar til við að fækka þessum tilvikum.“

„Svo þegar að það líður hjá og fólk fer að fara þarna aftur þá reynir meira á þetta,“ heldur hann áfram. Hann segir þó fækkun smitanna gefa góðar vonir um að faraldurinn sé að líða hjá.