Frá og með næstu mánaðarmótum mun mun Fréttablaðið ekki koma út á mánudögum, eins og verið hefur undanfarin ár. Eftir sem áður mun blaðið koma alla aðra daga að sunnudegi undanskildum.

Um er að ræða hagræðingu í rekstri fjölmiðla Torgs, sem gefur út Fréttablaðið, Markaðinn, DV og heldur úti vefmiðlunum DV.is, sem er einn mestlesni fréttavefur landsins, frettabladid.is sem er í mikilli sókn í lestri, og undirmiðlum þeirra. Engin breyting verður í starfsemi annarra miðla Torgs.

Jóhanna Helga Viðarsdóttir, forstjóri Torgs segir að fækkun útgáfudaga sé nauðsynleg hagræðingaraðgerð.

„Það eru margar áskoranir í rekstri fjölmiðlafyrirtækja um þessar mundir og við hjá Torgi höfum lagt allt kapp á að vernda störf eins og unnt er. Áhersla okkar hefur því verið að hagræða í öðrum þáttum rekstrarins.“

Hún segir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til styrktar einkareknum miðlum séu til bóta en breyti ekki þessari aðstöðu verulega. Óvissan sé enn mikil.

„Nú eigum við eftir að sjá hvernig fyrirhugaður rekstrarstyrkur stjórnvalda til einkarekinna fjölmiðla mun verður nánar útfærður og sömuleiðis er þinglegri meðferð málsins er ekki lokið. Það er því óvíst hvernig niðurstaðan endanlega verður. Við teljum hins vegar ekki hjá því komist að fækka útgáfudögum um einn í viku. Ég vil taka fram að engar uppsagnir fylgja þessari aðgerð nú um mánaðarmótin. Mikið hefur mætt undanfarnar vikur á því harðduglega og metnaðarfulla fólki sem starfar hjá Torgi, eftirspurn frétta og upplýsinga hefur sjaldan verið meiri. Mikilvægi þess að tryggja rekstrargrundvöll fjölbreyttra og traustra fjölmiðla er augljóst. Áfram verður lagt kapp á að halda úti öflugum og traustum fréttamiðlum með fjölbreyttu efni. Á því verður engin breyting.“