Þeim sem skráð eru í þjóðkirkjuna hefur fækkað um 231 síðan 1. desember í fyrra og eru nú 229.186 einstaklingar skráðir í hana samkvæmt Þjóðskrá.
Frá 1. desember hefur fjölgað mest í röðum Siðmenntar, um 471, og eru félagar þar nú 4.510. Meðlimum Ásatrúarfélagsins hefur fjölgað um 337 á sama tímabili og eru nú 5.432. Mest hefur fækkað í röðum Zúista eða um 260 meðlimi. Þeir eru nú 656.
Næst fjölmennasta trúfélag landsins er Kaþólska kirkjan með 14.717 skráða meðlimi og Fríkirkjan í Reykjavík með 10.023 meðlimi.
Mest hlutfallsleg fjölgun var í Félagi Tíbet búddista eða um 22,2 prósent en nú eru 44 meðlimir skráðir í félaginu eftir að átta nýir meðlimir skráðu sig í félagið á undanförnum ellefu mánuðum.
Alls voru 29.124 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga þann 1. nóvember síðastliðinn, sem jafngildir 7,8 prósent landsmanna.