Á milli áranna 2019 og 2020 fækkaði komum eldra fólks á bráðamóttöku Landspítala (LSH) um 2.600, úr rúmum 16 þúsund í um 13.400. Fækkunin nemur rúmum 16 prósentum og var mest í tengslum við bylgjur Covid í mars og október.

„Áratuginn þar á undan hafði komum eldra fólks hins vegar fjölgað í takt við fjölgun í þessum aldurshópi meðal þjóðarinnar,“ segir Ingibjörg Sigurþórsdóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun og teymisstjóri ráðgefandi hjúkrunarfræðinga aldraðra (BÖR) á bráðamóttöku LSH.

Hún og doktor Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir, prófessor í bráðahjúkrun við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og formaður Fagráðs í bráðahjúkrun á LSH, munu í dag fjalla um sameiginlega rannsókn þeirra á komum 67 ára og eldri á bráðamóttöku Landspítala.

Þær Þórdís og Ingibjörg segja að það sem helst hafi komið á óvart í rannsókninni sé að komuástæður hafi verið svipaðar milli áranna. Fækkunin hafi verið hlutfallslega jöfn milli sjúkdómsflokka, nema aðeins fækkun vegna slysa og áverka og aðeins fjölgun vegna ýmissa sjúkdómseinkenna.

„Þeir sem komu 2020 voru þó líklegri til að þurfa innlögn á legudeildir en 2019, það er komuástæðurnar virðast hafa verið bráðari,“ segja þær.

„Í heildina voru því færri komur til dæmis vegna alvarlegra og bráðra veikinda eins og hjarta- og æðasjúkdóma, heilaáfalla og sýkinga, sem okkur þykir áhugavert,“ segir Þórdís.

Spurðar að því hvers vegna komum á bráðadeild hjá þessum aldurshópi hafi fækkað segja þær ástæðuna ekki augljósa. „Við vitum ekki hvað varð um þá sem ekki komu til okkar á bráðamóttökuna þar sem við höfum ekki gögn um þau en getum í besta fallið giskað,“ segir Þórdís.

„Voru þau að bíða af sér faraldurinn þó að þau væru veik heima?“ segir hún og bendir á að smitleiðir hafi verið færri milli fólks í faraldrinum. ,,Fólk var líka minna á ferðinni sem skýrir færri sýkingar og slys, en af hverju komu færri vegna annarra bráðra veikinda eins og hjarta- og æðasjúkdóma og heilaáfalla?“ bætir Þórdís við.

„Kannski skipti einhverju máli að á reglulegum sjónvarpsfundum almannavarna var hvatt til heilsueflingar,“ segir Ingibjörg og bætir við að fjar- og símaþjónusta heilbrigðiskerfisins gæti líka hafa skipt sköpum.

„Við erum hins vegar hræddar um þann hóp sem einangraðist, gat ekki sótt dagþjálfun, reglubundið félagsstarf fyrir eldra fólk eða sjúkraþjálfun vegna sinna einkenna, að hrumleiki þeirra hafi getað aukist á þessum tíma sem birtist síðar í verra sjúkdómsástandi,“ segir Ingibjörg.

Aðspurðar um áhrifin segja Þórdís og Ingibjörg Covid-göngudeild Landspítala hafa skipt verulegu máli fyrir þjónustu bráðamóttöku spítalans á þessum tímum.

„En við spyrjum, var eitthvað sem gert var í samfélaginu og heilbrigðisþjónustu í fyrstu bylgjum Covid árið 2020 sem draga má lærdóm af til að bæta og efla forvarnir og þjónustu við aldraða? Hvernig ætlum við svo að þjónusta þá sem biðu lengi með sín einkenni? Þetta þarfnast umræðu og frekari rannsókna,“ segir Þórdís.

Erindi Ingibjargar og Þórdísar fer fram í beinu streymi á Fabook-síðu Rannsóknarstofu Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræði klukkan 15 í dag.