Í gær kynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra áform um að sameina tíu af stofnunum ráðuneytisins í þrjár stofnanir. Um 600 manns vinna hjá umgreindum stofnunum, en í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að megináhersla verði lögð á að tryggja áfram fyrirliggjandi mannauð og að starfsfólk njóti forgangs til nýrra starfa.
Hinar nýju stofnanir eru Náttúruverndar- og minjastofnun, Náttúruvísindastofnun og Loftlagsstofnun. Ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til staðsetningu höfuðstöðva nýrra stofnana, en mikil áhersla verður lögð á fjölgun starfa á landsbyggðinni. Í dag eru stofnanir ráðuneytisins þrettán og eru 61 prósent starfana á höfuðborgarsvæðinu.
„Stóra markmiðið er að efla stofnanir ráðuneytisins til að takast á við gríðarlegar áskoranir sem bíða okkar sem samfélags og eru þar loftslagsmálin efst á blaði,“ er haft eftir Guðlaugi Þór í tilkynningunni.
Að hans sögn er stefnt að því að auka skilvirkni og drafa úr sóun sem hlýst af tvítekningu og skorti á samstarfi.
„Einnig eru mikil sóknarfæri í fjölgun starfa á landsbyggðinni, fjölgun á störfum óháð staðsetningu og uppbyggingu eftirsóknarverðra vinnustaða,“ sagði Guðlaugur.