Inn­lend mat­væla­fram­leiðsla stendur fyrir stórum hluta fæðu­fram­boðs á Ís­landi og þá sér­stak­lega próteini. Garð­yrkjan sér fyrir um 43 prósent af fram­boði græn­metis, bú­fjár­rækt um 90 prósent af kjöti, 96 prósent af eggjum og 99 prósent af mjólkur­vörum. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu um fæðu­öryggi á Ís­landi sem kynnt var í dag. Þar segir að mikil­vægt sé að marka stefnu um hvernig tryggja megi fæðu­öryggi þjóðarinnar.

Skýrslan var unnin var af Land­búnaðar­há­skóla Ís­lands að beiðni Kristjáns Þórs Júlíus­sonar.

„Niður­stöður þessarar skýrslu sýna vel hvað inn­lend mat­væla­fram­leiðsla stendur sterkt og hvað hún er mikil­væg stoð enda stendur hún undir stórum hluta fæðu­fram­boðs á Ís­landi. Um leið sýnir skýrslan fram á þau tæki­færi sem blasa við að gera enn betur, m.a. í því að efla fram­leiðslu á korni inn­lendri á­burðar­fram­leiðslu. Um leið sýnir skýrslan fram á mikil­vægi þess að móta stefnu um hvernig tryggja megi fæðu­öryggi þjóðarinnar. Með slíkri stefnu þarf að setja mark­mið um getu inn­lendrar mat­væla­fram­leiðslu til að takast á við skyndi­legar breytingar á að­gengi að inn­fluttri mat­vöru og að­föngum til að tryggja fæðu­öryggi þjóðarinnar,“ segir Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, í til­kynningu.

Helstu niður­stöður skýrslunnar eru að inn­lend mat­væla­fram­leiðsla stendur fyrir tölu­verðum hluta fæðu­fram­boðs á Ís­landi og þá sér­stak­lega próteini. Þar segir að fram­leiðsla hverrar greinar eigi mis­stóran hlut í fæðu­fram­boði á Ís­landi. Fram­boð á fiski er langt um­fram inn­lenda eftir­spurn en hlut­deild inn­lendrar fram­leiðslu í græn­meti nær ekki helmingi. Þá er hlut­deild í eggjum, mjólkur­vöru og kjöti um 90 prósent eða meiri. Að­eins er hlut­deild korns til mann­eldis eitt prósent.

Þá kemur einnig fram í skýrslunni að inn­lend mat­væla­fram­leiðsla sé mjög háð inn­flutningi á að­föngum og þá sér­stak­lega elds­neyti og á­burði en einnig fóðri, sáð­vöru, tækjum og rekstrar­vörum til fram­leiðslunnar. Segir að bæði eðli og um­fang inn­flutnings að­fanga er mis­jafnt eftir greinum og því myndi skortur á að­föngum hafa mis­mikil á­hrif á fram­leiðsluna. Staða ein­stakra greina er metin í skýrslunni.

Mynd/Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

Skýr stefna nauðsynleg

Niður­stöður skýrslunnar eru að með við­eig­andi ráð­stöfunum varðandi birgða­hald á að­föngum væri hægt að tryggja meiri­hluta inn­lendrar fram­leiðslu í ein­hvern tíma, háð fram­leiðslu­greinum. Þá segir að það liggi tæki­færi í því að efla fram­leiðslu á korni, bæði sem fóður fyrir búfé og til mann­eldis, efla úti­ræktun græn­metis og efla inn­lenda á­burðar­fram­leiðslu með bættri nýtingu hrá­efna.

Til að tryggja að það land sem hentugast er undir ræktun tapist ekki undir aðra starf­semi þarf að liggja fyrir skýr stefna um land­notkun og flokkun land­búnaðar­lands.

Skýrslu­höfundar telja að eigin­legt fæðu­öryggi Ís­lendinga sé háð fjórum megin for­sendum:

  • að auð­lindir til fram­leiðslunnar séu til staðar, s.s. fiski­stofnar og land til ræktunar
  • að þekking á fram­leiðslu og tæki til fram­leiðslu séu til staðar
  • ·að að­gengi að að­föngum sé tryggt fyrir fram­leiðslu sem mætir þörfum þjóðarinnar, s.s. olíu, á­burði og fóðri
  • ·að birgðir séu til af þeim fæðu­tegundum sem þjóðin þarfnast en sem inn­lend mat­væla­fram­leiðsla getur ekki tryggt eða slík fram­leiðsla hér heima verði efld.

Skýrslan var unnin á grund­velli samnings á milli ráðu­neytisins og skólans sem undir­ritaður var í febrúar 2020. Í skýrslunni er ítar­leg um­fjöllun um inn­lenda mat­væla­fram­leiðslu, inn­flutning mat­væla og að­fanga. Fjallað er um veik­leika ís­lenskrar mat­væla­fram­leiðslu og lagt mat á á­hrif þess ef upp kæmi skortur á að­föngum sem nauð­syn­leg eru fyrir fram­leiðsluna. Einnig er fjallað um þætti sem gætu stuðlað að auknu fæðu­öryggi á Ís­landi.

Hægt er að kynna sér skýrsluna hér.