Fæðingartíðni íslenskra kvenna hefur dregist saman um því sem nemur að meðaltali hálfu barni á aðeins tíu árum. Hefur hún aldrei verið lægri en nú. Þá hefur meðalaldur kvenna við fæðingu fyrsta barns hækkað um tvö ár á sama tímabili, úr 27 árum í 29.

„Þetta eru mjög hraðar breytingar,“ segir Anna Karlsdóttir, yfirmaður norræns vinnuhóps hjá Nordregio í Stokkhólmi, rannsóknastofnun ráðherranefndarinnar um byggðamál og skipulag. Stofnunin hefur rannsakað fæðingartíðni í verkefninu Ástand Norðurlandabandalagsins. „Ýmsir þættir spila inn í þetta svo sem aukið menntunarstig, almenn notkun getnaðarvarna, breyttur tíðarandi og gildi ungs fólks. Ég er af þeirri kynslóð þar sem slysabörn voru algengari, en í dag vill fólk skipuleggja líf sitt betur,“ segir hún.

Annað sem hefur áhrif er frjósemisvandi sem sífellt færist í aukana. „Sífellt yngra fólk þarf að leita sér tæknilegrar aðstoðar til að verða foreldrar,“ segir Anna. „Það eru ýmiss konar ófrjósemisáskoranir sem hafa ekki verið rannsakaðar til hlítar.“ Aldurinn spili þó stóra rullu og á Norðurlöndunum verður það algengara að fólk stofni fjölskyldu eftir að besti líffræðilegi aldurinn til barneigna er liðinn, það er eftir 25 ára í tilfelli kvenna.

„Fjölskyldur með eitt barn eru að verða algengara fjölskylduform,“ segir Anna og vísar til finnskra rannsókna á þessu. „Að alast upp með systkini er að verða sjaldgæfara, sem er umhugsunarvert fyrir framtíðarsamfélög.“ Lækkandi fæðingartíðni er ekki einstök á Norðurlöndum heldur á hún við um alla Evrópu. Tíðnin hrapar þó hraðar á Íslandi. Allt til ársins 2010 var fæðingartíðni íslenskra kvenna sú hæsta í Evrópu en nú er hún í sjötta sæti og vel undir fjölgunarmörkum.

Þessi þróun er í mótsögn við aukinn stuðning við barnafjölskyldur. Opinberir hvatar til barneigna hafa því ekki haft áhrif. „Þetta ætti að haldast í hendur en gerir það ekki. Gildismat eða aðrar aðstæður hafa meiri áhrif,“ segir Anna.

Þrátt fyrir lækkandi fæðingartíðni er landsmönnum ekki að fækka. Hagstofan spáir því að Íslendingar verði 430 þúsund árið 2050, sem er fjölgun um 65 þúsund manns. Fjölgun á Íslandi er rétt eins og á Norðurlöndum drifin áfram af innflutningi fólks. Hér á Íslandi að langstærstum hluta frá Póllandi, þar sem hefur verið eiginleg fólksfækkun undanfarin ár. Óvíst er hvort það geti haldið áfram til langframa því að efnahagslegar aðstæður í Póllandi hafa batnað mikið undanfarin ár og stjórnvöld hvatt brottflutta til að snúa aftur heim.