Alls fæddust 1.310 börn á þriðja ársfjórðungi þessa árs, frá júlí til og með september. Þetta er mesti fjöldi fæðinga á einum ársfjórðungi frá því að talningar hófust fyrir tíu árum að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Til samanburðar fæddust 1.140 börn á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og 1.270 börn á öðrum og var það mesti fjöldi fæðinga á einum ársfjórðungi frá 2010 þar til nú.

Í heildina hafa 3.720 börn fæðst á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins.

Greint var frá því í sumar að það stefndi í metfjölda fæðinga yfir sumartímann. Mikið álag væri á fæðingardeild Landspítalans og voru konur meðal annars beðnar um að fæða á Akranesi.

Þá var reiknað með að um fimm þúsund börn myndu fæðast í ár, eða 500 fleiri en í fyrra.