Banda­ríska al­ríkis­stjórnin og sí­fellt fleiri fyrir­tæki og stofnanir vestan­hafs hafa komið á bólu­setningar­skyldu fyrir starfs­fólk. Þetta hefur mælst mjög mis­vel fyrir enda eru afar skiptar skoðanir um bólu­setningar og heimildir til þess að skikka starfs­fólk til að gangast undir þær.

Sjúkra­hús í New York-ríki hefur til­kynnt að þar verði ekki tekið við verðandi mæðrum á fæðingar­deild þess þar sem nokkrir starfs­menn þar sögðu upp störfum eftir að bólu­setningar­skylda var tekin upp. Gerald Ca­yer, for­stjóri Lewis Coun­ty Health Sy­stem, greindi frá því á blaða­manna­fundi á föstu­daginn að fæðingar­deildinni á Lewis Coun­try General Hospi­tal yrði lokað síðar í mánuðinum af þessum sökum.

Frá 25. septem­ber verður ekki hægt að „tryggja mönnun með öruggum hætti“ á fæðingar­deildinni að hans sögn. Í það minnsta sex óbólu­settir starfs­menn deildarinnar hafa sagt upp og sjö til við­bótar eru hikandi við að láta bólu­setja sig. Þann 27. septem­ber verða allir starfs­menn í heil­brigðis­kerfi New York-ríkis að vera bólu­settir vilji þeir halda vinnunni.

„Fjöldi upp­sagna gerir það að verkum að við verðum að hætta að taka á móti börnum á Lewis Coun­try spítalanum. Það er von mín að heil­brigðis­svið New York-ríkis vinni með okkur í að stöðva starf­semina tíma­bundið í stað þess að loka fæðingar­deildinni endan­lega,“ sagði Ca­yer.

Hann segir um 165 sjúkra­hús­starfs­menn, um 27 prósent þeirra sem þar starfa, séu óbólu­settir. Af þeim veita 73 prósent að­stoð við sjúk­linga.