Anton Elí Arnarsson er búinn að hlakka til þessa dags lengi. Þetta er ekki aðeins afmælisdagurinn hans, heldur 11 ára afmælisdagurinn. En hann er fæddur þann 11.11. árið 2011.

„Ég er búinn að hlakka til í nokkra mánuði,“ segir Anton. „Ég ætla að halda upp á það með strákunum í bekknum. Ég ætla að bjóða þeim í leiktækjasalinn hjá Smárabíói,“ segir hann. Vitaskuld langar hann í gjafir líka og er búinn að óska sér Galaxy Buds-heyrnartóla, rafmagnshlaupahjóls og peninga.

Anton er elsti sonur Andreu Óskar Tryggvadóttur, sem hún á með Arnari Jónssyni. Hún á tvo yngri syni með Ágústi Bjarklind og búa þau í Grafarvoginum.

Ekki leit endilega út fyrir að Anton myndi fæðast þennan dag því Andrea var sett þann fjórtánda. Möguleikinn var þó vel fyrir hendi.

„Pabbi Antons var alveg brjálæðislega spenntur fyrir þessum degi og var búinn að biðja mig um að reyna að eignast hann þennan dag,“ segir Andrea og brosir. „Hann varð mjög glaður þegar ég fór í gang þann tíunda og ljóst var að fæðingin myndi verða eftir miðnætti.“

Anton gengur núna í Borgaskóla, hefur ákaflega gaman af íþróttum og æfir körfubolta. Segir hann að íþróttir séu uppáhaldsfagið hans í skólanum.

„Mér finnst skemmtilegast að leika við vini mína, helst úti,“ segir hann.

Þá hefur hann einnig mjög gaman af tölvuleikjum og deilir reyndar afmælisdegi með söluhæsta tölvuleik allra tíma, Minecraft, sem kom út þann 11.11. árið 2011. „Ég spila hann ekki lengur, ég spilaði hann stundum hjá vini mínum,“ segir Anton, spurður hvort hann spili Minecraft.

„Anton Elí er rosalega góðhjartaður,“ segir Andrea. „Það er umtalað hjá þeim sem þekkja hann hvað hann er góður við allt og alla. Ef hann sér að einhverjir krakkar eru með stríðni og leiðindi, eins og er byrjað hjá krökkum á þessum aldri, þá nennir hann ekki að vera í kringum þá.“

Andrea segir að Anton hafi fengið nokkra athygli út af afmælisdeginum. Þegar hann fæddist kom fréttastofa Stöðvar 2 og tók viðtal við fjölskylduna. Síðan hefur verið fjallað um Anton bæði í Morgunblaðinu og Kópavogsblaðinu, þar sem fjölskyldan bjó eitt sinn þar. Árið í ár er þó sérstakt.

„Hann er mjög spenntur fyrir þessum degi og spurði hvort fréttirnar gætu ekki komið í afmælið hans,“ segir Andrea.