Líkt og fram hefur komið sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sig frá rannsókn í hryðjuverkamálinu í dag vegna mögulegs vanhæfis hennar.

Talið er að ástæða þess sé að nafn föður hennar hafi komið upp við skýrslutökur sakborninga hjá lögreglu.

Þetta kemur fram í frétt vísis en fréttastofan tekur fram að samkvæmt öruggum heimildum sé aðilinn sem nefndur var í skýrslutökum sé Guðjón Valdimarsson sem jafnframt er faðir ríkislögreglustjóra.

Guðjón er fæddur árið 1953 og rekur hann fyrirtækið vopnasalinn en það sérhæfir sig í sölu skotvopna í gegnum netið. Þá er Guðjón einnig talinn stórtækur skotvopnasafnari.

Ekki liggur fyrir með hvaða hætti Guðjón tengist rannsókn málsins. Ekki náðist í Guðjón við vinnslu fréttarinnar.

Sigríður Björk sendi samstarfsfólki sínu tölvupóst fyrr í dag þar sem hún greindi frá framvindu málsins en póstinn má lesa hér fyrir neðan:

Ágæta samstarfsfólk.

Ég vildi upplýsa ykkur um það að í fyrrakvöld óskaði ég eftir því við embætti ríkissaksóknara að segja mig frá rannsókn máls er varðar ætlaðan undirbúning hryðjuverka. Ríkissaksóknari hefur fallist á þessa beiðni mína og flutt rannsóknarforræði málsins til embættis Héraðssaksóknara.

Þetta verður tilkynnt á upplýsingafundi lögreglu um málið nú kl. 15:03 en ástæða þessarar beiðni eru upplýsingar þess efnis að einstaklingur, sem tengdur er mér fjölskylduböndum, hefur verið nefndur í sambandi við málið. Ég óskaði eftir því að segja mig frá málinu um leið og þessar upplýsingar lágu fyrir til að tryggja rannsóknarhagsmuni og viðhalda trausti til rannsóknarinnar. Vanhæfið snýr aðeins að þessu máli en ekki öðrum verkefnum eða störfum.