Drengurinn sem varð fyrir hópá­rás í síðustu viku í Hamra­borg er í á­falli og vill ekki fara í skólann né taka strætó af hræðslu við að mæta á­rásar­mönnunum aftur. Frétta­blaðið ræddi við föður drengsins sem er ó­sáttur við vinnu­brögð lög­reglu og segir að um haturs­glæp sé að ræða. RÚV birti myndband í frétt sinni í gær af árásinni í Kópavogi.

„Hann vill ekki fara í skólann. Hann hefur orðið fyrir miklu á­falli, bæði eftir á­rásina og eftir að þetta fór í fréttir. Vinir hans hringdu í hann en hann skammast sín fyrir þetta. Hann þorir ekki að fara í strætó því hann er hræddur um að mæta þessum strákum aftur. Þeir hafa sent honum skila­boð. Þeir segjast ætla að ráðast á hann aftur ef hann talar við lög­regluna og segjast vita hvar hann búi,“ segir faðir stráksins í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann vill ekki koma fram undir nafni en sonur hans er hræddur um að strákarnir sem réðust á hann muni leita hefnda.

Engar afleiðingar fyrir árásarmennina

Hann segir að reynsla hans af lög­reglunni hafi ekki verið góð. Kvöldið sem á­rásin átti sér stað fékk hann sím­tal frá lög­reglunni sem var á spítalanum með syni hans.

„Þeir sögðu að sonur minn og annar strákanna hafi skipu­lagt slags­málin saman. Að strákurinn og sonur minn hafi verið að slást og sonur minn hafi haft yfir­höndina í slagnum. Þá hafi vinur hans komið stráknum til bjargar. Þetta reyndist ekki vera rétt.“
Lög­reglan hafi sann­fært hann um að sonur hans hafi skipu­lagt slaginn og væri því lítið hægt að gera í málinu.

„Lög­reglan sagði mér að ég gæti ekkert gert vegna þess að sonur minn hafi skipu­lagt slaginn. Ég varð agn­dofa og spurði hvers vegna. Þá sagði lög­reglan mér að ég gæti lagt inn kvörtun en full­vissuðu mig um að ég gæti ekkert gert. Hvers konar skila­boð eru þeir að senda þessum ungu mönnum, að þeir geti ráðist á dreng án af­leiðinga?“

Hann segist hafa verið reiður syni sínum áður en hann sá mynd­bandið sem birtist daginn eftir á­rásina. Einn strákanna hafi tekið upp á­rásina á mynd­band og deilt því á sam­fé­lags­miðla.

Sannfærður um að sonur sinn væri sekur

„Eftir að sonur minn kom heim af spítalanum þá fór hann beint upp í rúm og ég leyfði honum að hvíla sig. Daginn eftir skammaði ég son minn. Ég öskraði á hann og sagði honum að svona geri maður ekki og að þetta væru af­leiðingarnar fyrir að leita uppi vand­ræða. Ég var sann­færður um að sonur minn væri sekur í þessu máli vegna þess að lög­reglan sagði mér það,“ segir faðirinn.

„Meira að segja þegar hann liggur á jörðinni, algjörlega varnarlaus, þá sparka þeir í hann.“

„Ég bað son minn um að skýra fram­ferði sitt. Hann sagði mér að hann hefði verið að rífast við einn strák sem hafði beðið um að hitta hann í Breið­holti. Hann vildi ekki fara þangað því hann var að sjálf­sögðu hræddur um að lenda í slag. Strákurinn kallaði hann heigul og sagði að hann væri ekki al­vöru karl­maður. Sonur minn er bara sak­laus ungur strákur og hélt að hann væri hug­rakkur fyrir að mæta þeim. Hann svaraði stráknum og sagðist ekkert vera hræddur við hann og að hann myndi mæta honum. Þá var á­kveðið að hittast í Hamra­borg. Það var auð­vitað heimsku­legt af honum og hann er sekur um að hafa mætt á staðinn. En hann er ekki sekur um að hafa ráðist á neinn.“

Spörkuðu í liggjandi strákinn

Þá hafi sonur hans mætt í Hamra­borg þar sem hann sá að strákurinn væri ekki einn. Hann hafi þá gengið í átt að honum til að heilsa honum.

„Hann gekk í átt að honum og rétti fram hönd sína til að heilsa honum. Í staðinn fyrir handa­band þá var hann kýldur í and­litið. Þá byrjuðu þeir að taka upp mynd­bandið. Það sést greini­lega í mynd­bandinu að sonur minn slær ekki til baka. Hann reynir að hlaupa í burtu en strákarnir elta hann og ná honum, sparka í hann og kýla hann. Hann er kýldur að minnsta kosti tuttugu sinnum í and­litið og reyndi alltaf að koma sér úr þessum að­stæðum en þeir ná honum alltaf og kýla hann og sparka í hann aftur og aftur. Meira að segja þegar hann liggur á jörðinni, al­gjör­lega varnar­laus, þá sparka þeir í hann.“

Gleymdi að útvega túlk fyrir skýrslutöku

Faðir stráksins leitaði til lög­reglu vegna málsins á mið­viku­daginn 12. febrúar og var beðinn um að koma í skýrslu­töku föstu­daginn 14. febrúar. Hann sagðist þurfa túlk fyrir skýrslu­tökuna þar sem hann talar spænsku og ensku en enga ís­lensku. Lög­reglan sagðist ætla að út­vega túlk fyrir skýrslu­tökuna en þegar hann mætti á föstu­daginn var enginn túlkur við­staddur.

„Ef þú setur einn Íslending og einn útlending saman í herbergi og biður þá um að lýsa einhverri atburðarrás, þá mun fólk alltaf trúa frekar Íslendingnum.“

„Lögreglumaðurinn bauð mér upp á skrifstofu sína og ég spurði hvar túlkurinn væri og útskýrði að ég talaði ekki íslensku. Lögreglumaðurinn tjáði mér að það væri enginn túlkur svo sonur minn og lögregluþjónninn töluðu saman á íslensku í skýrslutökunni og ég skildi auðvitað ekki neitt. Eftir að skýrslutökunni var lokið átti lögreglumaðurinn að lesa upp fyrir mig það sem þeir ræddu um þar en hann gerði það aldrei. Hann bara rétti mér blaðið og sagði mér að skrifa undir og svo yfirgáfum við stöðina.“

Faðirinn segist ekkert vita um stöðuna á málinu. Lögreglan sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem kom fram að málið væri í rannsókn og leitað væri að vitnum að hópárásinni. Lögreglan hefur hins vegar ekki rætt við feðgana aftur að sögn föðurins.

Segir lögreglumanninn hafa tekið stöðu dómara

Faðirinn segir að lögregluþjónninn sem ræddi við son hans fyrst hafi verið búinn að ákveða að sonur hans væri sekur.

„Lögregluþjónninn, sem ég ræddi við fyrst, sagði mér að sonur minn hefði ekki viljað viðurkenna í fyrstu að hafa átt að skipuleggja slaginn. Það sem ég held að hafi gerst er að það sem sonur minn sagði hafa gerst passaði ekki við sögu strákanna sem réðust á hann. Þá hafi lögregluþjónninn spurt hann aftur vegna þess hann trúði ekki frásögn sonar míns.“

Hann segir fólk líklegra til að trúa Íslendingum en fólki af erlendu bergi brotnu.

„Þessir strákar eru allir íslenskir og sonur minn er útlenskur. Mér finnst það vera þannig á Íslandi, að ef þú setur einn Íslending og einn útlending saman í herbergi og biður þá um að lýsa einhverri atburðarás, þá mun fólk alltaf trúa frekar Íslendingnum. Fólk heldur að Íslendingar muni alltaf að segja sannleikann. En það skiptir engu máli hvaða fólk er; allir hafa það í sér að ljúga, svíkja og vera til vandræða,“ segir faðirinn.

„Það er eins lögregluþjónninn hafi verið búinn að ákveða að sonur minn væri sekur. En það er starf dómarans, ekki lögreglumannsins.“

Yfirheyrður í áfalli beint eftir árásina

Faðirinn greinir frá því að sonur hans hafi misst meðvitund á einum tímapunkti í miðri árásinni. Hann hafi verið í miklu áfalli og ekki standi til að fara í yfirheyrslu beint eftir árásina.

„Lögreglumaðurinn yfirheyrði son minn þegar hann var í áfalli beint eftir árásina. Hann þekkti sögu strákanna og reyndi að knýja fram svipaða sögu frá syni mínum. Ég bara velti fyrir mér hvers vegna lögreglumanninum fannst hann þurfa að spyrja son minn að sömu spurningunni aftur og aftur þar til hann fékk öðruvísi svar. Er það vegna þess að hann trúði ekki syni mínum?“ veltir faðirinn fyrir sér.

Hann telur að lögreglumaðurinn hafi ekki þurft að yfirheyra hann á spítalanum en hefði eins getað beðið til morguns.

Hafi verið með hakakross á hillunni

Faðirinn segir margt hafa verið óþægilegt við ferlið hjá lögreglunni. Hann hafi fengið áfall þegar hann sá það sem hann taldi vera hakakross á mynd á hillunni hjá lögreglumanninum sem tók hann í skýrslutöku.

„Þetta er að sjálfsögðu hatursglæpur en hvaða kemur þetta hatur gagnvart útlendingum?“

„Þegar ég var í skýrslutökunni á skrifstofu lögreglunnar þá tók ég eftir innrammaðri mynd á hillu lögreglumannsins. Það var mynd af honum með sjö eða átta manns sem stóðu fyrir framan merki með hakakrossi. Mér skilst að þetta hafi verið gamla merki fyrirtækisins Eimskips en ég vissi það ekki á þessum tíma,“ segir hann og veltir fyrir sér hvort lögreglumaðurinn hafi áttað sig á hugrenningatengslum útlendinga við að sjá hakakross.

„Ég og aðrir útlendingar tengjum hakakrossinn við nasista og útlendingahatur. Eimskip er ekki fyrirtækið sem kemur upp í huga okkar þegar við sjáum hakakross. Ég var í hálfgerðu áfalli að sjá þessa mynd á skrifstofunni og fannst það gríðarlega óviðeigandi.“

Börn læra af foreldrum sínum

Faðirinn segir að um sé að ræða hatursfulla árás sem gerð var til að niðurlægja son hans. „Þetta er ekki bara slagur á milli barna. Þarna er hatursfull árás sem var gerð til að niðurlægja son minn. Til að niðurlægja útlendinga. Þeir báðu son minn um að kyssa skóna þeirra. Þeir reyndu að taka af honum beltið og ræna hluti úr vasanum hans.“

„Hvers vegna þessi niðurlæging og hvers vegna að reyna að ræna hann? Þessir strákar líta ekki út fyrir að vera fátækir. Ég hef séð myndir á samfélagsmiðlum og séð að foreldrar þeirra eiga sumarhús og eru fyrirtækjaeigendur. Í fátækum löndum skilur maður alla vega ástæður ræningjanna sem eru að reyna að lifa af. En ég skil ekki þessa stráka sem klæðast dýrum fatnaði, búa í góðu samfélagi og hafa aðgang að góðri menntun.“

Aðspurður hvort hann telji árásina vera hatursglæp svarar faðirinn játandi.

„Þetta er að sjálfsögðu hatursglæpur en hvaðan kemur þetta hatur gagnvart útlendingum? Hvað þarf að breytast í okkar samfélagi? Börn læra af foreldrum sínum. Þau endurtaka það sem þau heyra í umhverfi sínu og á heimilinu.“