„Mig langar að koma þökkum á framfæri til allra sem senda okkur kveðjur og hlýja strauma,“ segir Ísak Sigurgeirsson, verslunarstjóri í Ásbyrgi.

Ísak er staddur í Svíþjóð ásamt eiginkonu sinni, Senee Sankla Noi, þar sem læknar veita fimmtán ára gömlum syni þeirra bestu fáanlegu meðferð eftir alvarlegt slys fyrir rúmri viku.

Sonur þeirra, Sigurgeir, var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann eftir slys sem leiddi til þess að stór hluti líkama hans varð fyrir skaða. Þaðan var flogið í sjúkraflugi á gjörgæsludeild til Uppsala í Svíþjóð. Ísak og Senee flugu út degi síðar og sjá fram á að dvelja með syni sínum á sjúkrahúsinu úti fram að áramótum.

Brunasár þekja um 40 prósent líkama Sigurgeirs. „En það má þakka skjótum viðbrögðum réttra aðila, sem komu drengnum undir læknishendur eins fljótt og verða mátti, að ekki fór verr,“ segir Ísak.

Drengnum hefur verið haldið sofandi fram að þessu vegna aðgerða. „Hann er í öndunarvél,“ segir Ísak en kveðst vongóður. Lungu og önnur líffæri Sigurgeirs sluppu sem er mikil blessun að sögn Ísaks.

„Hann á eftir að ná sér en þetta tekur allt sinn tíma.“

Eldri bróðir Sigurgeirs var staddur í Taílandi þegar slysið varð. Hann flýgur heim næstu daga til að líta eftir fjölskyldufyrirtækinu Ásbyrgi sem Ísak og Senee hafa rekið áratugum saman.

Sigurður Reynir Tryggvason bílstjóri hljóp í skarðið í fjarveru eigenda búðarinnar og hafði ráðgert að búðin, sem er eina matvörubúð svæðisins, yrði opin milli klukkan 14 og 17 þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gærmorgun.

„Ég dekka þetta í bili og á svo von á syni hjónanna. Verð honum til stuðnings eins og þarf,“ segir Sigurður Reynir.

Hann segir mikinn samhug í héraðinu um að leggja fjölskyldu drengsins lið.

„Það leggjast allir á eitt þegar svona dynur yfir. Ég finn mjög mikinn stuðning við þau og legg vitaskuld sjálfur af mörkum eins og hægt er.“

Sóknarpresturinn á Skinnastað, Jón Ármann Gíslason, hefur hrundið af stað fjársöfnun, enda gríðarmikill kostnaður af meðhöndlun fyrir fjölskylduna sem og tekjutap.

„Þau geta ekki sinnt með hefðbundnum hætti rekstrinum næstu vikur og mánuði. Þess vegna vil ég að höfðu samráði við vini og velunnara fjölskyldunnar minna á styrktarreikning prestakallsins,“ segir Jón Ármann í ákalli á samfélagsmiðlum.