„Jæja kæru vinir þá erum við komin aftur í loftið,“ svona hefst nýjasta Facebook-færsla lögreglunnar á Suðurlandi eftir rúmlega tveggja mánaða pásu frá samfélagsmiðlinum.

Greint var frá því um miðjan janúar síðastliðinn að lögreglan á Suðurnesjum hefði tekið ákvörðun um að hætta á miðlinum vegna athugasemda frá Persónuvernd um notkun þeirra á miðlinum.

Athugasemdir Persónuverndar hafi einna helst snúið að notkun lögreglunnar á samfélagsmiðlinum og þá sérstaklega í tengslum við móttöku upplýsinga í gegnum miðilinn.

Pásan stóð þó ekki lengi yfir en lögreglan á Suðurnesjum er mætt aftur á Facebook eftir smávægilegar breytingar. Í nýjustu færslu lögreglunnar segir að breytingar hafi verið gerðar og að nú sé ekki hægt að senda þeim skilaboð í gegnum Messenger heldur muni það fara í gegnum tölvupóst.

„En við erum komin aftur í loftið og því ber að fagna. Við semsagt fengum ábendingar frá Persónuvernd sem við tókum til greina og gerðum bætur á því sem þeim fannst vera að hjá okkur og nú er það bara fulla ferð áfram. Mikið er gaman að “sjá” ykkur öll aftur. Nú má sumarið bara fara að láta sjá sig,“ segir í færslu lögreglunnar.

Svo virðist sem fólk hafi verið farið að sakna lögreglunnar á Suðurnesjum á samfélagsmiðlinum ef marka má viðbrögð þeirra við færslunni.

„Velkomin aftur. Ykkur var sárt saknað,“ segir ein.