Facebook hefur tilkynnt að hömlur verði settar á beinar útsendingar notenda (Live). Þeir sem brjóta reglur Facebook, sem til dæmis dreifa boðskap hryðjuverkasamtaka í beinni útsendingu, verða umsvifalaust settir í tímabundið bann frá notkun „Live“.

Um helgina fer fram ráðstefna í París gegn öfgum á netinu. Fyrir ráðstefnunni standa Emmanuel Macron, forseti Frakklands og Jacinda Adern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. Í marsmánuði streymdi byssumaður hryðjuverkaárás sinni í beinni útsendingu á Facebook. Þar féllu 51.

Markmiðið með ráðstefnunni er freista þess að ná alþjóðlegri samstöðu um að koma í veg fyrir að samfélagsmiðlar séu notaðir til að skipulegga og auglýsa hryðjuverk. Á ráðstefnunni munu leiðtogar frá Evrópulöndum, Kanada og Miðausturlöndum hitta hátt setta yfirmenn Facebook, Google, Twitter og annarra samfélagsmiðla.

Facebook tilkynnti í gær, í aðdraganda ráðstefnunnar, að samfélagsmiðillinn hafi tekið upp harðari stefnu í málum sem snúa að beinum útsendingum. „Til dæmis verður einhver sem deilir hlekk með yfirlýsingu hryðjuverkahóps, verður samstundis settur í straff frá Live í tiltekinn tímta - til dæmis 30 daga,“ segir í yfirlýsingunni. Engar aðvaranir lengur.

Fram kemur að til standi að útvíkka þessar reglur og þeir sem gerast sekir um brot á reglum geti ekki búið til Facebook-auglýsingar. Markmiðið sé að draga úr hættunni á að beinar útsendingar verði misnotaðar en um leið draga ekki úr frelsi fólks sem notar Live í jákvæðum tilgangi.

Í yfirlýsingunni segir að Facbook hafi átt í erfiðleikum með að uppræta myndbandið af hryðjuverkaárásinni á Nýja-Sjálandi, vegna þess að alls kyns útgáfur af því fóru hratt í dreifingu. Rannsaka þurfi hvernig koma megi í veg fyrir slíka dreifingu en til þess hefur Facebook efnt til samstarfs við þrjá háskóla í Bandaríkjunum.

Ardern hefur sagt að útspil Facebook sé gott fyrsta skref.