Facebook mun loka á aðganga Donald Trump Bandaríkjaforseta á miðlum sínum, Facebook og Instagram, um óákveðinn tíma. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Mark Zuckerberg, stofnanda og stærsta eigandi Facebook. Aðgangarnir munu vera lokaðir að minnsta kosti þangað til Joe Biden hefur tekið við sem forseti Bandaríkjanna í lok mánaðarins.

Þessi ákvörðun er tekin eftir atburði gærdagsins þegar óeirðaseggir og fylgjendur Donalds Trump gerðu áhlaup að þinghúsinu í Washington þar sem Bandaríkjaþing hafði komið saman til að staðfesta kjör Joe Biden til forseta Bandaríkjanna. Fjögur létust í árásinni.

„Átakanlegir atburðir síðasta sólarhringinn sýna greinilega af Trump hyggst nota þann tíma sem hann á eftir í embætti til að grafa undan friðsamlegum og lögmætum umskiptum valdsins til kjörins arftaka síns, Joe Biden,“ skrifaði Zuckerberg og heldur áfram.

„Við teljum að áhættan af því að leyfa forsetanum að halda áfram að nota miðla okkar á þessum tímapunkti sé einfaldlega of mikil. Þess vegna höfum við ákveðið að halda reikningum hans lokuðum um óákveðin tíma."

Facebook greindi frá því í gær að aðgangi forsetans yrði lokað næstu 24 klukkustundirnar vegna brotum á reglum miðilsins varðandi færslur hans í tengslum við mótmælin.

Zuckerberg segir að Facebook vilji almennt tryggja pólitíska umræðu og þess vegna hafi þau leyft Trump að tjá sig á miðlum þeirra síðustu árin. Nú sé hann sé hins vegar að hvetja til ofbeldisfullrar uppreisnar gegn lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn. Það geti Facebook ekki liðið.

„Í gegnum tíðina höfum við fjarlægt færslur frá honum eða merkt við þær þegar þær brutu gegn reglum okkar. Við gerðum þetta því við teljum að almenningur eigi rétt á breiðum aðgangi á pólitískri umræðu, jafnvel umdeildri umræðu."

Hægt er að lesa yfirlýsingu Zuckerberg í heild sinni hér að neðan.

.

The shocking events of the last 24 hours clearly demonstrate that President Donald Trump intends to use his remaining...

Posted by Mark Zuckerberg on Thursday, 7 January 2021

Ekki látið heyra í sér á Twitter

Samfélagsmiðilinn Twitter læsti einnig tímabundið á reikning Trump í gær og eyddi tístum frá forsetanum. „Í ljósi for­dæma­lauss of­beld­is í Washingt­o­num­dæmi höf­um við farið fram á það að fjar­lægðar verði þrjár færsl­ur @realDon­ald­Trump á Twitter sem voru skrifaðar fyrr í dag, fyr­ir end­ur­tek­in og al­var­leg brot á regl­um okk­ar,“ sagði miðill­inn í fréttatil­kynn­ingu. Reikningum var lokað í 12 tíma en forsetinn hefur ekkert látið heyra í sér í dag frá því að opnað var fyrir reikninginn aftur.