Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna stefndi fyrirtækinu Meta fyrir að nota auglýsingatækni sem ýtir undir mismunun á húsnæðismarkaði. Samkomulag náðist um að Meta myndi breyta tækninni til að koma í veg fyrir mismunun.
Facebook, dótturfyrirtæki Meta, mun hætta með auglýsingatækni sem gerir fyrirtækjum kleift að velja hóp fólks sem viðmið og auglýsa til einstaklinga sem eru með svipaða eiginleika og aðrir í hópnum. Tæknin heitir á ensku „Lookalike Audience“.
Samkvæmt dómsmálaráðuneytinu getur slík tækni verið notuð til að mismuna fólki á grundvelli kynþáttar, kyns og annarra eiginleika. Slíkt brýtur gegn lögum um jafnt aðgengi að húsnæði.
Meta náði samkomulagi við ráðuneytið sama dag og málið var höfðað gegn þeim og munu hætta með tækninni í síðasta lagi um áramótin. Þau skuldbinda sig einnig til að hanna tækni sem á að vinna gegn þeirri mismunun sem fyrri tæknin kann að hafa valdið.
Árið 2019 samþykkti Facebook einnig að breyta auglýsingatækni sinni til að draga úr mismunun í húsnæðisauglýsingum sem og lána og vinnuauglýsingum. Þá var þeim auglýsendum bannað að beina auglýsingum að fólki út frá aldri, kyni eða póstnúmeri.
