Sam­fé­lags­miðillinn Face­book hefur fjar­lægt færslu sem Donald Trump Banda­ríkja­for­seti birti á síðu sinni þar sem hann fer með rang­færslur um kórónu­veiruna. Þetta er í fyrsta skipti sem Face­book fjar­lægir færslu frá for­setanum en miðillinn hefur undan­farið sætt nokkurri gagn­rýni fyrir að leyfa Trump að birta ó­sannindi á síðu sinni.

Í færslunni sem var fjar­lægð mátti finna mynd­bands­klippu af við­tali sem Trump fór í hjá banda­ríska fjöl­miðlinum Fox News. Þar stað­hæfði hann að börn væru „nánast ónæm fyrir Co­vid-19“. Börn sem fá Co­vid-19 virðast al­mennt fá minni ein­kenni en full­orðnir en eru hins vegar alls ekki ónæm fyrir veirunni. Ein­hver hafa þá orðið al­var­lega veik og önnur látið lífið í heims­far­aldrinum og þótti Face­book um­mælin því teljast til rangra og hættu­legra upp­lýsinga.

„Í mynd­bandinu má finna rang­færslur um að hópur fólks sé ó­næmur fyrir Covid-19 sem er brot á okkar reglum um skað­legar og rangar upp­lýsingar um Covid,“ sagði tals­maður Face­book.

Að­gangur kosninga­her­ferðar for­setans á Twitter birti einnig mynd­bandið sem varð til þess að Twitter lokaði fyrir fleiri færslur frá honum. „Sá sem á að­ganginn verður að fjar­lægja mynd­bandið til að geta tíst aftur,“ sagði tals­maður Twitter.

Frétt The Guar­dian um málið.