Vilji landsmanna til að leigja húsnæði fremur en búa í eigin húsnæði eykst á milli ára. Yfirgnæfandi meirihluti leigjenda segist þó kjósa að búa í eigin húsnæði.

Í októbermánaðarskýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkja­stofnunar kemur fram að í fyrra náði hlutfall þeirra sem kjósa að búa í leiguhúsnæði lágmarki, eða 8,8 prósent. Hlutfallið hækkar upp í 12,1 prósent í ár. Þetta hlutfall hefur ekki mælst svo hátt síðan 2018 þegar það mældist 14,3 prósent.

Þá vekur athygli samkvæmt skýrslunni að Facebook er orðið helsti vettvangur fyrir fólk sem finnur sér leiguhúsnæði. Vægi Facebook þegar fólk finnur sér leiguhúsnæði hefur aukist á síðustu þremur árum. Hátt í 30 prósent leigjenda finna sér leiguhúsnæði í gegnum Facebook, en ríflega 20 prósent fá lausn sinna mála í gegnum vini og kunningja, sem er næstöflugasta leið þeirra sem leita leiguhúsnæðis.

Þó nokkur munur er á milli kynjanna. Konur á leigumarkaði nota Facebook hlutfallslega meira en karlar. Á móti leita karlmenn talsvert meira til vina, kunningja og ættingja þegar þeir þurfa að útvega sér leiguhúsnæði.