Eftirlitsnefnd Facebook hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun fyrirtækisins að banna reikning Donald Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hafi verið réttmæt en gagnrýnir að bannið sé ótímabundið. Forsetinn var bannaður bæði á Facebook og Instagram eftir að stuðningsmenn hans réðust inn í bandaríska þinghúsið 6. janúar.
Nefndin telur að með því að banna forsetann án þess að gefa upp hvenær hann geti notað Facebook aftur sé fyrirtækið að fara út fyrir þann refsiramma sem vanalega er viðhafður er notendur eru bannaðir. Venjulega séu notendur bannaðir í ákveðinn tíma. Því hefur nefndin fyrirskipað Facebook að fara yfir þá ákvörðun að banna forsetann fyrir lífstíð og „réttlæta hlutfallslegt svar“ sem eigi við alla notendur Facebook.
Taka beri á öllum notendum eins
Að mati eftirlitsnefndarinnar var hin upphaflega ákvörðun um að banna Trump fyrir lífstíð „óljós og án stuðnings verkferla“ og rétt viðbrögð ættu að vera „í samræmi við aðrar reglur sem gilda um aðra notendur samfélagsmiðilsins.“
Facebook hefur hálft ár til að svara nefndinni. Helle Thorning-Schmidt, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur sem á sæti í nefndinni, segir að ekki hafi verið einfalt að komast að niðurstöðu í málinu. Hún býst við því að fyrirtækið taki niðurstöðuna til greina.

„Við erum að benda Facebook á að skoða málið frekar og viðhafa meira gagnsæi í framtíðinni varðandi svona mál. Koma fram við alla notendur eins og ekki refsa handahófskennt“, segir Thorning-Schmidt.
Í svari Facebook við niðurstöðu nefndarinnar sagði að niðurstaðan yrði tekin til skoðunar og ákveðið yrði hvernig taka mætti á málinu með skýrum hætti.