Tveir karl­menn voru hand­teknir í gær eftir að lög­regla réðst í um­fangs­miklar að­gerðir á höfuð­borgar­svæðinu. Vísir greindi fyrst frá og segir að annar þeirra sem voru hand­teknir hafi verið karl­maðurinn sem birti um síðustu helgi mynd­band af sér á Facebook að fremja al­var­lega líkams­á­rás á öðrum manni. Maðurinn er um þrí­tugt.

Eins og greint hefur verið frá hand­tók lög­regla manninn fyrr í vikunni vegna mynd­bandsins en honum var sleppt eftir yfir­heyrslu. Í kjöl­farið hafa átök og spenna í undir­heimum stig­magnast en tveimur dögum eftir hand­töku mannsins kvknaði eldur í íbúð hans. Eldurinn hefur verið rann­sakaður sem í­kveikja en Frétta­blaðinu barst mynd­band af í­kveikjunni, sem var birt á mið­viku­dag.

Sérsveit aðstoðaði lögreglu

Lögregla hefur sent frá sér tilkynningu um málið og segir að farið hafi verið í húsleitir með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra í gær. Mennirnir voru handteknir á sitthvorum staðnum. Samkvæmt heimildum Vísis var annar þeirra handtekinn í Vallar­ási seint í gær­kvöldi.

Lög­regla hafði einnig af­skipti af þremur mönnum í fjöl­býlis­húsi í Fella­hverfi síð­degis í gær vegna rann­sóknar málsins.

Hún taldi í fyrstu að einn mannanna væri vopnaður og því var tals­verður við­búnaður á svæðinu. Svo reyndist hins vegar ekki vera og var enginn hand­tekinn þar.

Lögreglan segir að von sé á frekari upplýsingum um málið þegar rannsókn þess vindur fram. Það verði mögulega síðar í dag.

Fréttin var uppfærð klukkan 10:20 eftir að lögreglan sendi frá sér tilkynningu um málið.