Bandarisk flugmálayfirvöld (FAA) hafa metið flugvélina Boeing 737 MAX 8 flughæfa. Ákvörðun FAA hafði verið beðið frá því að farþegaþota Ethiopian Air hrapaði í gær. Nítján flugfélög hafa kyrrsett flugvélar af sömu gerð, þar af eru þrettán kínversk. 

Sjá einnig: Rétt missti af fluginu: „Horfði á eftir síðustu far­þegunum“

Tvær þotur af gerðinni Boeing 737 MAX hafa farist á skömmum tíma, báðar stuttu eftir flugtak, nú síðast í Eþíópíu í gær. Þrjár vélar af sömu gerð eru í notkun hjá Icelandair, en ekki stendur til að kyrrsetja vélarnar eða grípa til sérstakra aðgerða. 

Sjá einnig: Allar Boeing 737 MAX 8 í Kína kyrr­settar

FAA  metið það sem svo að flugvélar af sömu gerð séu flughæfar en telja hins vegar að á þeim þurfi að gera einhverjar kerfisbreytingar. 

Í tilkynningu frá FAA kemur fram að þó að flugslysin virðist eiga ýmislegt sameiginlegt þá hafi rannsókn á tildrögum slyssins í gær rétt hafist og eins og staðan sé nú sé ekki hægt að draga neinar ályktanir.

Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að flugfélagið væri í góðum samskiptum við Boeing. „Boeing upplýsir okkur um allt sem kemur fram þegar þetta er rannsakað. Við erum í samskiptum við þau og mögulega koma til einhverjar aðgerðir eftir því sem rannsókninni vindur fram, ef tilefni er til þess,“ sagði Jens.

Sjá einnig: Vélin sem hrapaði sömu gerðar og nýjar vélar Icelandair