Frá því að ný stefna Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra var samþykkt árið 2019 hefur meðal annars verið unnið að breyttri skilgreiningu á heimilisleysi. Soffía Hjördís Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og forstöðu­kona íbúða­kjarna fyrir konur með tvígreiningar, segir nýja skilgreiningu mikilvæga til að stækka mengið sem nýtir þann stuðning sem í boði er.

„Þar komu fleiri konur inn, konur sem dvelja hjá vinum til dæmis en hafa ekki öruggt húsaskjól,“ segir hún. Líkt og Fréttablaðið greindi frá um liðna helgi kom fram í greinargerð um heimilislausar konur og ofbeldi, sem kynnt var á fundi ofbeldisvarnarnefndar, að kynbundið ofbeldi geti verið orsök heimilisleysis.

Soffía segir viðhorfsbreytingu í garð heimilislausra, sem búi við jaðarsetningu, hafa átt sér stað. Þó séu uppi vangaveltur um það hvort tengsl jaðarsettra einstaklinga við gerendur séu metin til jafns við aðra þegar kemur að heimilisofbeldismálum.

„Með því á ég við að þegar einstaklingur verður fyrir ofbeldi af hálfu einhvers sem er honum nákominn, tengdur eða skyldur sé þar engin breyta um það hvort þessir sömu einstaklingar séu jaðarsettir eða tilheyra sömu félagslegu stöðu,“ segir Soffía.

„Það er vert að taka það fram að áfallasaga einstaklinga á sér bein tengsl í heimilisleysi og orsakatengslin þar sterk, þar er kynbundið ofbeldi oft hluti af áfallasögu.“

Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er honum nákominn, tengdur eða skyldur. Ofbeldið getur verið andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt eða stafrænt. „Heimilisofbeldi er ekki bundið við heimili geranda eða þolanda og getur átt sér stað hvar sem er,“ segir á vefsíðu lögreglunnar.

„Þegar hugsað er um að koma konum sem búa við heimilisleysi í tryggar aðstæður í kjölfarið á heimilisofbeldi eru úrræðin fá,“ segir Soffía og bendir á að heimilislausar konur sem noti vímuefni eigi til að mynda í fá hús að venda. „Þau úrræði sem standa þolendum nú til boða hafa þau skilyrði að einstaklingur sé ekki undir áhrifum vímuefna.“

Fulltrúar sem starfa að málaflokki heimilislausra hafa einnig unnið að gagnkvæmri fræðslu til neyðarlínunnar til að mæta þörfum notenda. Þá hefur einnig átt sér stað samtal á milli fulltrúa málaflokksins og kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

„Þar höfum við leitað eftir lausnum til að bæta umhverfi jaðarsettra kvenna innan lagaumhverfis sem er ekki endilega sniðið að þörfum og áskorunum jaðarsettra einstaklinga,“ segir Soffía og bætir við að áskoranir felist að miklu leyti í þeim ferlum sem réttarkerfið bjóði upp á. Sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga í stöðu þolenda verði að liggja á bak við kæru á hendur gerendum

„Framkvæmdin verður því oft flókin. Staða jaðarsettra kvenna er samt því miður sú að það er stundum ekki traust á kerfinu eða þol þeirra takmarkað til að treysta sér í að fara í svo þunga málsmeðferð sem fylgir slíku kæruferli,“ segir Soffía.