Sex þingmenn Miðflokksins sem sátu að sumbli á Klausturbar, fá sex daga til að bregðast við ráðgefandi áliti siðanefndar Alþingis en álitið var birt fyrir mistök á vef Alþingis í gær og svo endurbirt í dag. Þingmennirnir fá sex daga til að bregðast við.

Í áliti nefndarinnar kemur fram að hátterni þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, Gunnars Braga Sveinssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Bergþórs Ólasonar Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar á Klausturbar varði almenning og að því leytinu til verði ekki litið á atvikin sem einkasamtal en einn nefndarmannanna, Róbert Haraldsson, skilaði inn séráliti þar sem hann benti á að málið sé einstakt hér á landi.

Eftir að álit nefndarinnar var birt á vef Alþingis í gær gerði þingflokkur Miðflokksins við það athugasemd og sendu þau frá sér tilkynningu á Facebook þar sem birtingin var harðlega gagnrýnd. Þau sögðust hafa farið fram á að birtingunni yrði frestað og að fallist hefði verið á það. Við það tilefni var skýrslan tekin út af vef Alþingis en er nú þar að nýju.

Á vefsíðu Alþingis kemur fram að þingmennirnir hafi fengið frest þar til á þriðjudaginbn 2. apríl næstkomandi til að bregðast við áliti nefndarinnar. Þingmennirnir hafa ítrekað sagt að eðli málsins sé pólitískt og sagt að lög og grundvallarreglur sanngjarnrar málsmeðferðar hafi ítrekað verið brotin.