Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, ákvað í gær að veita Samtökunum ‘78 fjögurra milljóna króna styrk. Styrknum verður varið til ráðgjafar og fræðslu um málefni hinsegin fólks.

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78, segir styrkinn koma sér afar vel. Samtökin séu á fimmtán milljóna þjónustusamningi hjá forsætisráðuneytinu sem dugi þó ekki fyrir þeirri þjónustu sem samtökin veiti.

Daníel segir styrkinn ætlaðan til sérstakrar ráðgjafar til transfólks, faglegrar aðstoðar til lækna og hjúkrunarfræðinga á Landspítala, aukinnar upplýsingagjafar á sviði kynheilbrigðis „og ekki síst til að sporna gegn félagslegri einangrun og verri andlegri heilsu í hópi okkar skjólstæðinga.“

Hjá Samtökunum ‘78 er hinsegin fólki og þeim sem ekki eru viss um kynhneigð sína veitt ráðgjöf. Daníel segir aðsókn til samtakanna hafa aukist gríðarlega síðustu ár. „Á síðustu fimm árum hefur ráðgjöfin okkar vaxið 538 prósent. Mikið af því eru jaðarhópar að koma til okkar í ráðgjöf,“ segir hann.

Í ársskýrslu samtakanna fyrir síðasta ár má sjá að á milli áranna 2019 og 2020 var 47 prósenta aukning í fjölda þeirra sem þáðu ráðgjöf hjá Samtökunum ‘78, á síðasta ári voru þau 506 talsins. Að meðaltali kemur hver viðmælandi tvisvar sinnum í ráðgjöf. Alls voru veitt 1.115 viðtöl árið 2020.

Aðspurður um ástæðu þessarar aukningar segir Daníel: „Ástæðan er aukin umræða og aukin vitundarvakning.“