Velferðarnefnd Reykjanesbæjar synjaði erindi Öruggs skjóls – félagasamtaka um fjárhagsstuðning upp á 65,6 milljónir króna vegna starfsmannahalds sem tengist opnun áfangaheimilis í bæjarfélaginu. Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð velferðarráðs Reykjanesbæjar. Þrátt fyrir það er engan bilbug að finna hjá forráðamönnum Öruggs skjóls sem stefna að því að opna heimilið í næsta mánuði og verði þá í boði úrræði fyrir þá sem hafi lokið áfengis- eða vímuefnameðferð, fyrrverandi fanga eða þá sem ekki eigi í nein hús að venda á Suðurnesjunum.

Öruggt skjól var sett á laggirnar sem minningarsjóður Þorbjörns Hauks Liljarssonar og segir Guðrún Hauksdóttir Schmidt, talsmaður Öruggs skjóls og móðir Þorbjörns Hauks, að stefnan sé enn að opna í desembermánuði. „Við fengum veður af þessum fréttum og erum að skoða hvort við getum minnkað umfang styrktarbeiðnarinnar. Þetta var há upphæð og það er ekkert útséð um að við getum lækkað hana að einhverju leyti, til dæmis með því að fá inn sjálfboðaliða. Þá myndi launakostnaðurinn minnka þótt hann yrði að sjálfsögðu einhver,“ segir Guðrún sem verður forstöðumaður heimilisins ef þeim tekst að opna.

Í rökstuðningi Reykjanesbæjar er hugmyndum Öruggs skjóls hrósað fyrir metnað og tekið undir mikilvægi verkefnisins. Hins vegar hafi óvissan sem fylgir kórónaveirufaraldrinum þau áhrif á fjármál sveitarfélagsins að nefndin sjái ekki fram á að geta veitt þennan styrk og var styrkbeiðninni því hafnað.

Guðrún segir að Öruggt skjól sé einnig búið að setja sig í samband við ráðuneyti í von um að hefja samstarf þegar áfangaheimilið verði opnað.

„Við erum búin að sækja um aðstoð heilbrigðisráðuneytisins, um að við fáum hjúkrunarfólk til að aðstoða okkar og þau sjái um launakostnaðinn sem fylgir þeim. Markmiðið er enn þá að opna í næsta mánuði. Við gefumst ekki upp og höldum áfram að vinna að markmiði okkar að opna áfangaheimilið.“