„Bæjarráð vill sýna þakklæti sitt í verki og hvetja starfsmenn til að gera sér dagamun í skammdeginu, stolt yfir vel unnum störfum,“ segir bæjarráð Ölfus sem ákveðið hefur að færa starfsmönnum sveitarfélagsins átta þúsund króna gjafakort.

„Erfiðum aðstæðum hefur verið mætt af einurð, æðruleysi og með einbeittum vilja til að viðhalda mikilvægri innviðaþjónustu. Þetta ástand hefur á sama tíma komið í veg fyrir að hægt sé að halda reglubundna árshátíð eða umbuna starfsmönnum fyrir vel unnin störf með hefðbundnum hætti,“ segir bæjarráðið sem hvetur starfsmennina til að nýta gjafakortið þannig „að fyrirtæki hér í Sveitarfélaginu Ölfusi njóti góðs af“.

Grétar Ingi Erlendsson, bæjarfulltrúi í Ölfusi og formaður markaðs- og menningarnefndar.
Fréttablaðið/aðsend