Sífellt verður vinsælla að fara á sólarströnd um hátíðirnar og í ár verða þúsundir Íslendinga á eyjunni Tenerife. Margar vélar flytja sólarþurfi Íslendinga til eyjunnar á degi hverjum.

„Ég held að hálf þjóðin verði hér um jól og áramót,“ segir Herdís Hrönn Árnadóttir sem rekur ásamt manni sínum Sævari Lúðvíkssyni veitingastaðinn Nostalgíu, sem gjarnan er kallaður Íslenski barinn á Tenerife og torgið fyrir framan hann Íslandstorgið.

Herdís og Sævar eiga von á 400 manns í mat yfir hátíðirnar og færri komast að en vilja. „Ég bjóst alveg við því að einhverjir myndu veikjast og ekki koma en það hafa nánast ekki verið neinar afbókanir,“ segir Herdís.

Í sól og sumaryl má finna íslenskt.

Samkvæmt Herdísi finna venjulegir ferðamenn ekki fyrir miklum breytingum á eyjunni. Strendurnar, hótelin, verslunarmiðstöðvarnar og veitingastaðirnir eru opin. En stærri hópum þarf að deila niður á fleiri borð. Rétt eins og hér á Íslandi er þó grímuskylda í verslunum. „Á veitingastöðum er mjög mikið um að krafist sé bólusetningarvottorðs eða PCR-prófs,“ segir Herdís.

Rétt eins og Ísland er Tenerife rauðlituð á hinu fræga Covid-korti Evrópsku sóttvarnastofnunarinnar og nýgengi veirunnar hátt. Hafa yfirvöld á Tenerife meðal annars áhyggjur af miklum samgangi milli eyjunnar og meginlandsins á jólunum.

Á Nostalgíu eru meðal annars sýndir jólatónleikar, boðið upp á skötu og saltfisk á Þorláksmessu, hangikjöt og uppstúf á jóladag og annan í jólum og um áramótin verður horft á skaupið og skotið upp flugeldum.

Frá því Nostalgía var stofnuð, árið 2016, hefur skötuveislan verið hvað vinsælust. Herdís segir að fólk panti borð í ágúst, sem er ekki seinna vænna því það þarf að sækja skötuna til Íslands. Það var hins vegar í fyrra sem aðfangadagur kom sterkur inn.

Sævar og Herdís sækja skötuna til Íslands

„Við sáum að Íslendingar höfðu þörf fyrir að fá hamborgarhrygginn, hlusta á messuna og fá smá Ísland í sig í tvo til þrjá tíma áður en þeir héldu út í hitann og sólina,“ segir Herdís. Hátíðin í ár verður ekki síðri ef marka má aðdragandann. „Við ætluðum að hafa rólega viku fram að jólum og gera laufabrauð en það varð brjálað að gera hjá okkur.“

Herdís og Sævar stofnuðu barinn eftir að hafa farið til Tenerife í frí. Tóku þau eftir að það vantaði sárlega bar sem sýndi landsleiki Íslands í fótbolta. Um tíma göntuðust þau með hugmyndina en létu svo slag standa. „Það fara jafn margar vélar til Íslands og koma hingað. Þannig að ef þetta virkar ekki förum við bara aftur heim. En við erum enn þá hér,“ segir Herdís.

Íslendingar hafa eignað sér torgið fyrir framan Nostalgíu.