Rúmlega 70 prósent íslenskra stúdenta eru í vinnu með námi því annars hefðu þeir ekki efni á því að stunda nám, segir í bréfi Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ) sem hefur lagt af stað í herferð til að ítrekar kröfur um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta.

Hlutafallið sem vinnur með námi er það hæsta á Norðurlöndunum.

Greitt er af launum stúdenta í atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð, eins og hjá öllum öðrum vinnandi landsmönnum en réttinn til bóta fá þeir hins vegar ekki. Frá 1.janúar 2010, þegar stúdentar voru með lögum sviptir atvinnuleysisbótarétti, hafa stúdentar greitt yfir 4 milljarða í atvinnutryggingagjöld án nokkurra bótaréttinda.

Fjórir milljarðar er niðurstaða útreikningar SHÍ ef miðað er við að 70 prósent stúdenta vinna samhliða námi, helmgingurinn starfi að vetri og allir starfi að sumri á lágmarkslaunum.

„Eiga stúdentar ekki betra skilið?“

Herferð Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem hefst í dag ber yfirskriftina „Eiga stúdentar ekki betra skilið?“. Stúdentaráð ítrekar að það þurfi að ráðast í markvissar aðgerðir til að sporna gegn erfiðri fjárhagslegri stöðu stúdenta og hugsa aðgerðir til lengri tíma.

Gjáin breikkar miskunnarlaust á milli atvinnuleysistryggingakerfisins og námslánakerfisins, segir í bréfi SHÍ:

„Stúdent er nefnilega ekki heimilt að vera í meira en 12 einingum, samhliða vinnu, til að eiga rétt á stuðningi úr atvinnuleysistryggingakerfinu missi hann vinnuna. Á sama tíma verður stúdent að standast 22 einingar til að eiga kost á námslánum. Það skiptir engu máli hvort stúdent sé í námi og hlutastarfi eða í 100% vinnu, jafnvel til margra ára, og námi með, því stúdent sem missir vinnuna hefur engan rétt á fjárhagsaðstoð úr atvinnuleysistryggingakerfinu aðeins vegna þess að hann stundar nám. Það er því stór hluti námsfólks sem fellur milli kerfa og hefur ekkert annað úrræði að sækja í.“