Félagið Ikan ehf. í Borgarbyggð hefur ekki enn fengið gögn frá Borgarbyggð sem félaginu ber samkvæmt úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 31. mars. Eigandi félagsins, sem hafði starfsemi við Brákarbraut í Borgarnesi, segir kærumálin halda áfram. Líklega endi málið fyrir dómstólum.

Ikan er frumkvöðlasetur og bátasmiðja sem leigði aðstöðu hjá Fornbílafjelagi Borgarfjarðar við Brákarbraut 25 til 27 í Brákar­ey. Snemma árs 2021 var öllum félögunum fjórtán sem höfðu þar aðstöðu gert að stöðva starfsemi vegna ónógra brunavarna. Þar á meðal Skotfélagi Vesturlands, Golfklúbbi Borgarness og Bifhjólafélaginu Röftum.

Endi fyrir dómstólum

Samkvæmt úrskurðinum átti Ikan að fá yfirlit úr málaskrá yfir öll erindi varðandi Brákarbraut 25 til 27 frá 1. nóvember árið 2020 til 2. apríl árið 2021, kauptilboð og tölvupósta vegna kaupa.

Þorsteinn Máni Árnason, eigandi Ikan, segir að síðan málið hófst hafi hann margsinnis sent inn stjórnsýslukærur og ekki sjái fyrir endann á þessu ferli. Málið muni án vafa enda fyrir dómstólum. Hann telur framkvæmd lokunarinnar og úttekt hafa verið bágborna.

Ikan er ekki tómstunda- eða frístundafélag og á því ekki rétt á aðstoð Borgarbyggðar við að finna nýtt húsnæði og styrk samkvæmt nýjum reglum sveitarfélagsins.

Eftir að hafa verið úthýst úr húsinu hafi Ikan haft minni háttar framleiðslu í tjaldi í Brákarey. Flest tæki, tól og stór fiskibátur, sem hafi verið lengi í smíðum, sé inni í húsinu.

Fari í fangelsi rjúfi hann innsiglið

„Þarna inni eru innilokaðar allar okkar eigur,“ segir Þorsteinn. Verðmætið áætlar hann á bilinu 140 til 150 milljónir króna. „Ef ég myndi rjúfa innsiglið þýðir það fjögur ár í fangelsi.“

Fornbílafjélagið var með leigusamning við Borgarbyggð til ársins 2035 en honum hefur nú verið rift. Ikan er með leigusamning við Fornbílafjélagið til ársins 2025. Ikan hefur verið í húsinu í um 15 ár.

Þann 11. febrúar árið 2021 var félögunum gert að stöðva starfsemi eftir úttekt eldvarnareftirlitsins og byggingarfulltrúa. Nokkrum vikum seinna var húsið innsiglað og eru munir ennþá þar inni.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar, segir að félög geti nálgast hluti þó að húsnæðið sé innsiglað.

„Félögin eru mörg að fara út úr húsnæðinu þessa dagana. Þau þurfa að hafa samband við tengilið hjá bænum þegar þau vilja sækja hluti,“ segir Þórdís.

Samkvæmt verkfræðiskýrslu kostar meira en 650 milljónir króna að lagfæra húsið. Þórdís segir hluta af því ónýtan en annan hluta hægt að laga. Ekki liggur þó fyrir hvort það verði gert.

„Sveitarfélagið er ekki að fara í uppbyggingu á húsnæðinu. Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort húsnæðið verður selt eða rifið,“ segir Þórdís