Ekki hefur tekist að ráða fagfólk í transteymi Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans, BUGL, þrátt fyrir að búið sé að auglýsa stöður. Teymið hefur ekki verið starfrækt frá áramótum þó að kveðið sé á um það í lögum.

Birna Björg Guðmundsdóttir, einn stofnenda Trans vina, hagsmunasamtaka foreldra og aðstandenda trans barna og ungmenna á Íslandi, segir að lítið hafi gerst frá því í febrúar er samtökin afhentu heilbrigðisráðherra, forstjóra Landspítalans og landlækni undirskriftir þar sem krafist var aukins fjármagns og að nýtt teymi yrði skipað.

„Við höfum fundað með BUGL, þau eru öll af vilja gerð en það sækir enginn um, ef einhver sækir um, þá vantar þau aukna menntun eða sætta sig ekki við launin,“ segir Birna. „Þetta er dagvinna, sem þýðir að það eru engar álagsgreiðslur eða hlunnindi. Það eru dæmi um að hjúkrunarfræðingar vilji ekki sækja um vinnu á deildinni þar sem þeir myndu lækka svo mikið í launum. Þetta er hræðileg staða.“

Í fyrra voru um 500 börn í þjónustu hjá BUGL, rúmlega 50 af þeim eru trans. Sá hópur fær áfram þjónustu á BUGL, en án fagþekkingar. Birna segir ástandið hræða hana mikið. „Þetta er hópur sem þarf virkilega á þjónustu teymisins að halda. Það er hræðilegt þegar þessi börn þurfa að fara í gegnum rangan kynþroska, sjálfsvígstíðnin er há, það vill enginn strákur byrja á blæðingum.“

Linda Kristmundsdóttir, forstöðumaður kvenna- og barnaþjónustu á aðgerðasviði Landspítala, segir að auglýst verði áfram eftir starfsfólki.

Frá því um áramótin hafa trans börn fengið þjónustu á göngudeild BUGL. „Þar er vel haldið utan um málin þeirra með almennu starfsfólki göngudeildar, þó að það sé ekki sérstakt transteymi,“ segir Linda.

Er BUGL einnig í samstarfi við innkirtlalækna á Barnaspítala, sem hafa þekkingu á hormónalyfjum og fleiru. „Það hefur tekist að halda þjónustunni eins góðri og hægt er miðað við kringumstæðurnar.“

Samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki BUGL hefur starfsmannaveltan verið mjög mikil meðal fagfólks. Fáir hafa sérþekkingu á málefnum trans barna.

„Önnur teymi BUGL, þar á meðal átröskunarteymi og taugateymi, eru í sama vanda, það hefur gengið aðeins betur þar sem það eru fleiri sem hafa þekkingu á því. Það eru mjög fáir með þekkingu á málefnum trans barna,“ segir Linda.

Dóttir Birnu þarf sem betur fer ekki á þjónustu BUGL að halda. „Ég finn svo til með hinum foreldrunum, þeim sem þurfa að sitja sjálfsvígsvaktina. Við foreldrar viljum bara að börnin okkar lifi, um það snýst þetta. Við viljum heldur ekki ala upp sjúklinga.“