Kosningar hófust í gær í fjórum sjálfs­stjórnar­héruðum í Úkraínu í gær á vegum rúss­neskra yfir­valda en til­gangur þeirra er að inn­lima héruðin. Að sögn er­lendra miðla hafa borgara héraðanna ekki fengið að yfir­gefa svæðin og fá ekki að gera það fyrr en kosningu er lokið. Kosningin var skipu­lögð í kjöl­far þess að Úkraína náði stórum svæðum aftur á sitt vald. Á­ætlað er að kosningunni ljúki á þriðju­dag.

Á vef Reu­ters segir að kjör­sókn hafi í gær í Do­netsk verið 23,6 prósent, um 20 prósent í Za­poriz­hzhia og 15 prósent í Kher­son. Auk þess hefur í­búum svæðanna sem búa nú í Rúss­landi verið gert kleift að greiða at­kvæða í Moskvu.

Þá segir á vef Reu­ters að vopnaðir hópar hafi mætt á heimili fólks og fólki hótað at­vinnu­missi ef það tæki ekki þátt. Á vef BBC segir að í­búar svæðanna hafi fengið heim­sóknir frá rúss­neskum her­mönnum sem hafi tekið við at­kvæðum þeirra munn­lega og þau full­vissuð að ekkert komi fyrir þau ef þau segi nei. Sums staðar hefur einn at­kvæða­seðill verið notaður fyrir heilt heimili. Þá hafa í­búar lýst því að vilja ekki greiða at­kvæða með inn­limun en segjast ekki þora að kjósa gegn henni og aðrir segjast ekki ætla að taka þátt því þau viti að niður­staðan er fyrir fram á­kveðin.

Elena Kravchenko, formaður kjörnefndar, tilkynnti um niðurstöðu eftir atkvæðagreiðslu fyrsta dag kosninganna.
Fréttablaðið/EPA

Leið­togar vest­rænna ríkja hafa for­dæmt kosninguna og sagt kosninguna svið­setta. Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir utan­ríkis­ráð­herra sagði í vikunni að það væri ekkert mark takandi á niður­stöðu kosninganna og hafa aðrir leið­togar tekið í sama streng. Engir ó­háðir eftir­lits­aðilar eru með kosningunni.

For­seti Úkraínu, Volodymír Selenskíj sagði í reglu­legu á­varpi sínu í gær­kvöldi að heimurinn myndi for­dæma niður­stöðu kosninganna auk her­kvaðningarinnar sem Pútín til­kynnti um í vikunni en hann sagðist ætla að kalla til stríðsins 300 þúsund karl­menn.

„Þetta eru ekki bara brot á al­þjóða­lögum og úkraínskum lögum, þetta eru glæpir gegn sér­stökum hópi fólks, gegn þjóð,“ sagði Selenskíj sem hvatti fólk til þess að fela sig fyrir Rússum til að komast hjá her­kvaðningunni en að þeir sem kæmust ekki hjá því ættu að reyna að eyði­leggja fyrir Rússum innan frá.