Stúlkur í Afgan­istan hafa enn ekki fengið að snúa aftur til náms í gagn­fræða­skólum rúmum þremur mánuðum eftir að þeim var bannað að mæta til skóla af Talí­bönum. Margir nem­endur og kennarar eru orðnir mjög ör­væntingar­fullir og óttast að þeir muni ekki fá að mæta aftur til náms og vinnu. Frá þessu er greint í frétta­skýringu BBC.

„Að geta ekki lært er eins og dauða­refsing,“ segir hin fimm­tán ára gamla Meena og bætir því við að hún og vin­konur hennar upp­lifi sig týndar og ringlaðar eftir að skóli þeirra lokaði í Bada­khs­han héraði.

„Við höfum ekkert annað að gera en vinna heimilis­störf... við stöndum bara í stað,“ segir hin sex­tán ára gamla Laila í Takhar héraði sem hefur ekki fengið að mæta í skólann síðan Talí­banar rændu völdum um miðjan ágúst.

Kennarar hafa miklar á­hyggjur af vel­líðan nem­enda sinna en flestir kennarar hafa ekki fengið greidd laun síðan í júní. Einn kennari sem BBC ræddi við kenndi lokununum um það að þrír nem­enda hennar fimm­tán ára og yngri hafi verið neyddir í barna­brúð­kaup.

„Nem­endurnir eru í miklu upp­námi og upp­lifa and­lega erfið­leika. Ég reyni að blása þeim byr í brjóst en það er erfitt þegar þær eru ber­skjaldaðar fyrir svo mikilli sorg og von­brigðum,“ segir um­sjónar­kennari frá Kabúl sem heldur sam­bandi við nem­endur sína í gegnum What­sapp.

Dæmi eru um það að stúlkur þori ekki að mæta í skólann af ótta við Talíbana.
Fréttablaðið/Getty

Á­reittar af Talí­bönum úti á götu

Þá hafa kennarar greint frá miklu brott­falli á meðal stúlkna í grunn­skólum þrátt fyrir að þeim hafi verið leyft að mæta aftur til skóla. Að sögn þeirra hefur aukin fá­tækt og á­hyggjur af öryggi nem­enda gert það að verkum að for­eldrar eru hikandi að senda börn sín í skóla.

Talí­banar hafa áður forðast það að segja að um blátt bann sé að ræða og hafa áður haldið því fram að konum og stúlkum yrði leyft að stunda nám og vinnu innan marka íslamskra sjaríalaga. Starfandi að­stoðar­mennta­mála­ráð­herra Abdul Ha­kim Hemat stað­festi þó í við­tali við BBC að stúlkum yrði ekki leyft að snúa aftur til náms í gagn­fræða­skólum fyrr en nú mennta­mála­stefna yrði sam­þykkt á næsta ári.

Þrátt fyrir þetta eru dæmi um að sumir stúlkna­skólar hafi fengið að opna aftur eftir samninga­við­ræður við Talí­bana. Skóla­stjóri í borginni Mazar-i-Sharif sem BBC ræddi við sagði að stúlkur væru að mæta til hennar skóla án nokkurra vand­kvæða. En að sögn nemanda í sömu borg hafa þó vopnaðir liðs­menn Talí­bana komið upp að nem­endum á götum úti og skipað þeim hylja hár sitt og munn. Margir nem­endur hafi því hætt að mæta til skóla vegna ótta við Talí­bana.

„Við erum með lífið í lúkunum þegar við yfir­gefum heimili okkar. Fólk brosir ekki. Á­standið er ekki öruggt. Við erum nötrandi af ótta,“ segir stúlkan.

Við erum með lífið í lúkunum þegar við yfir­gefum heimili okkar. Fólk brosir ekki. Á­standið er ekki öruggt. Við erum nötrandi af ótta.

Býst við að nem­endur muni deyja

Að­stoðar­mennta­mála­ráð­herrann Hemat segir að nú­verandi á­stand sé einungis tíma­bundin seinkun á meðan að ríkis­stjórnin út­færir örugga lausn fyrir stúlkur að snúa aftur til náms. Hann í­trekar mikil­vægi þess að stúlkur og drengir séu að­skilin í skóla­stofunni en slíkt er þegar mjög al­gengt í Afgan­istan.

Stúlkum og konum var al­farið bannað að stunda nám í Afgan­istan þegar Talí­banar voru síðast við völd í landinu á árunum 1996-2001.

Skóla­stjóri frá Ghor héraði sem BBC ræddi við sagði þó að skóla­lokanirnar bliknuðu í saman­burði við önnur vanda­mál sem nem­endur hennar standa and­spænis.

„Ég held að margir af nem­endum okkar muni deyja... Þeir hafa ekki nógu mikið af mat og geta ekki haldið á sér hita. Þú getur ekki í­myndað þér fá­tæktina,“ segir hún.

Afgan­istan stendur nú frammi fyrir einni verstu mann­úðar­krísu heims en Sam­einuðu þjóðirnar hafa varað við því að 14 milljón af­gönsk börn gætu lent í hungur­sneyð í vetur.