Byggðarráð Skagafjarðar hafnaði tillögu VG um að leggja fyrir íbúa sveitarfélagsins spurningar um staðsetningu og notkun á væntanlegu menningarhúsi í komandi kosningum.

Byggðarráðið samþykkti samninginn með tveimur atkvæðum en einn sat hjá í atkvæðagreiðslunni.

Áætlaður framkvæmdakostnaður er rúmlega 1,4 milljarðar og er hlutur sveitarfélagsins 40 prósent og ríkisins 60 prósent. Álfhildur Leifsdóttir, fulltrúi VG í byggðarráðinu, lagði til að afstaða íbúanna yrði könnuð í kosningunum þar sem langt er liðið frá því að ákvörðunin var tekin.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar greiddu atkvæði gegn tillögu Álfhildar og sögðu að það væri fagnaðarefni að loks væri búið að finna varanlega lausn í málinu enda væru drög samningsins frá 2019. Áætlað er að húsið verði tilbúið 2025.