Guðmundur Gunnarsson
ggunnars@frettabladid.is
Fimmtudagur 30. júní 2022
05.00 GMT

Dæmi eru um að hælisleitendur fái atvinnuleyfi og tilkynningu um brottvísun í einum og sama mánuðinum. Par frá Venesúela furðar sig á því að verið sé að vísa vinnufúsu fólki úr landi á sama tíma og velflestar atvinnugreinar glíma við manneklu.

Á síðustu fjórum árum hafa hátt í þúsund manns frá Venesúela sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Fleiri en frá nokkru öðru landi, að Úkraínu meðtalinni.

Þær Jaelis Dorante og Beatriz Moreno tilheyra þessum ört stækkandi hópi fólks, en þær komu hingað frá Síle fyrir tæpu ári og sóttu þá um alþjóðlega vernd.

Vita ekki hvenær þeim verður vísað úr landi

Umsóknum þeirra hefur verið synjað í tvígang og þeim gert að yfirgefa landið. Þær hafa ekki hugmynd um hvenær stendur til að vísa þeim úr landi.

„Við höfum verið fastar í þessu tómarúmi síðustu ellefu mánuði. Eins og svo margir í sömu stöðu hér á landi. Við fáum voða lítið að vita. Annað en að íslensk yfirvöld vilja okkur ekki,“ segir Beatriz.

„Sem okkur finnst skjóta dálítið skökku við í ljósi allrar umræðunnar um skort á vinnuafli á Íslandi um þessar mundir,“ bætir Jaelis við.

Jaelis og Beatriz kynntust í Síle eftir að hafa flúið ástandið í Venesúela fyrir fjórum árum. En það er einmitt vegna veru þeirra í Síle sem kærunefnd útlendingamála rökstyður synjun um dvalarleyfi og tafarlausa brottvísun.

Aldrei öruggar í heimalandinu

Í Síle unnu þær fyrir sér á kaffihúsi en vegna kynhneigðar sinnar segjast þær aldrei hafa upplifað sig öruggar þar.

„Þótt ástandið í Síle sé ekkert í líkingu við það sem við þekkjum frá heimalandinu þá urðum við fyrir ótrúlega miklu aðkasti og fordómum í Síle. Að hluta til vegna þess að við erum samkynhneigðar en ekki síður vegna þess að við erum frá Venesúela. Það er nokkuð sem við, sem erum á flótta, þekkjum alltof vel. Við virðumst hvergi vera velkomin og í Síle hefur andúð í garð fólks frá Venesúela aukist alveg gríðarlega síðustu ár.“

Jaelis segist elska að vinna á kaffihúsinu. Það gefi henni mikið að vera innan um fólk og æfa sig í tungumálinu.
Mynd/AntonBrink

Jaelis lærði læknisfræði í Venesúela og Beatriz vann sem blaðamaður, áður en þær, eins og svo margir samlandar þeirra, hrökkluðust úr landi.

Þær segja örugglega erfitt fyrir fólk að skilja hvernig það er að búa við stöðugt óöryggi og ógnarstjórn í sínu eigin heimalandi. „Og fyrir okkur sem samkynhneigðar konur er Venesúela alveg skelfilegt land. Ofan á allt hitt,“ segir Beatriz.

Þótt þær sakni vissulega ættingja og vina sjá þær ekki fyrir sér að fara nokkurn tímann aftur til Venesúela.

„Við vonum auðvitað að við eigum eftir að hitta fólkið okkar aftur en það verður þá að gerast í öðru landi. Venesúela er ekki land sem vekur hjá manni heimþrá eða löngun til að snúa aftur. Því miður."

Alltaf annars flokks

Beatriz bætir við að þær þekki í raun ekkert annað en að vera álitnar annars flokks.

„Þannig leið okkur í Venesúela og svo aftur í Síle. „Þótt staða okkar sé snúin hér á Íslandi þá hefur okkur hvergi liðið betur. Við elskum þetta land og viljum ekkert fremur en að fá að tilheyra. Ísland er kannski ekki fullkomið en kostirnir eru svo margir að þeir trompa gallana. Meira að segja veðrið,“ segja þær og skella upp úr.

„Bara það að geta gengið frjáls og áhyggjulaus um göturnar er hreinasta dásemd í okkar augum,“ bætir Jaelis við.

„Við ræðum það oft okkar á milli hvort við höfum gert eitthvað rangt til að verðskulda að vera í þessari stöðu. Við höfum alltaf reynt að breyta rétt. Standa okkur í skóla og vinnu. Koma vel fram við annað fólk. En samt er eins og það skipti engu máli. Einhverra hluta vegna virðumst við alls staðar hornreka.“ segir Beatriz.

„Ef við værum ekki svona jákvæðar að eðlisfari og sannfærðar um að allt muni blessast á endanum þá er ég viss um að við værum fyrir löngu búnar að gefast upp,“ bætir Jaelis við.

Beatriz og Jaelis segja
Mynd/AntonBrink

Þrá ekkert frekar en að vera hér

Óvissan sem þær Beatriz og Jaelis búa við hér á landi hefur ekki hindrað þær í að laga sig að daglega lífinu og leggja sig fram við að læra íslensku.

Fyrir nokkrum mánuðum fékk Jaelis svo vinnu á kaffihúsi og tímabundið atvinnuleyfi í kjölfarið.

„Það breytti miklu fyrir okkur. Ég elska vinnuna mína og ég finn að íslenskan verður betri með hverjum deginum. Það er svo dásamlegt að uppgötva allt í einu að maður er farinn að skilja,“ segir Jaelis og brosir.

„Það er samt svo skrítið að vera í þessari stöðu. Að vera kominn inn í kerfið en samt með það hangandi yfir sér að kerfið vilji mann ekki,“ segir Jaelis og yppir öxlum.

„Það er nefnilega málið,” segir Beatriz. „Hér erum við. Elskum þetta land og þráum ekkert frekar en að fá að vera hérna. Stofna fjölskyldu, stunda vinnu, borga okkar skatta og taka þátt í samfélaginu. Við sjáum ekki hvernig það getur verið gegn vilja nokkurs að við látum drauma okkar rætast á Íslandi.“

Athugasemdir