Ríkis­stjórn Banda­ríkjanna til­kynnti frekari hernaðar­hjálp handa Úkraínu upp á einn milljarð Banda­ríkja­dala á mánu­daginn. Um er að ræða á­tjánda hjálpar­pakkann sem Banda­ríkja­stjórn hefur veitt Úkraínu síðan inn­rás Rússa í landið hófst.

Með þessum pakka nemur heildar­upp­hæð hernaðar­að­stoðar Banda­ríkjanna við Úkraínu í stríðinu gegn Rúss­landi níu milljörðum dollara. Fjár­lög Úkraínu gerðu að­eins ráð fyrir 5,9 milljörðum í varnar­mál árið 2021.

„Við vorum að til­kynna stærsta hjálpar­pakka til Úkraínu í öryggis­málum til þessa,“ sagði Lloyd Austin, varnar­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna, við til­efnið. „And­virði eins milljarðs Banda­ríkja­dala af skot­færum, vopnum og búnaði – af sama tagi og úkraínska þjóðin er að nota svo skil­virkt til að verja landið sitt.“

Meðal búnaðarins í hjálpar­pakkanum eru fleiri skot­færi fyrir HIMARS-loft­skeyta­kerfin sem Banda­ríkja­menn hafa fært Úkraínu­mönnum. Bent hefur verið á kerfin, sem eru bæði lang­dræg og afar ná­kvæm, sem eina helstu á­stæðu þess að Úkraínu­mönnum hefur tekist að hægja á fram­rás rúss­neska hersins og snúa vörn í sókn á til­teknum svæðum.

Eftir nýjustu vopna­sendinguna verða HIMARS-kerfin í Úkraínu orðin alls tólf talsins. Eld­flaugarnar drífa um 80 kíló­metra og skekkju­­mörk þeirra eru innan fá­einna metra. Talið er að Úkraínu­menn hafi hæft um 110 hernaðar­leg skot­mörk í Donbas og Kher­son-héraði með þessum flaugum í júlí.

Volodymyr Zelen­skyj, for­seti Úkraínu, þakkaði Banda­ríkjunum fyrir vopna­sendingarnar á Twitter-síðu sinni á mánu­daginn.

„Ég er þakk­látur banda­rísku þjóðinni og for­seta Banda­ríkjanna per­sónu­lega fyrir að veita Úkraínu for­dæma­lausan eins milljarðs dollara hjálpar­pakka. Sér­hver dollari í slíkri hjálp er skref í átt að sigri gegn á­rásar­mönnunum. Við munum alltaf muna eftir stuðningi leið­toga Banda­ríkjanna á þeirri stundu sem hans var þörf!“