Demókratar fá aldrei að sjá skattskýrslur Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna. Þetta segir Mick Mulvaney, starfsmannastjóri Hvíta hússins í samtali við Fox fréttastofuna í dag.
„Það er ekki að fara að gerast og þau vita það,“ sagði Mulvaney. Sagði hann kjósendur hafa verið vel meðvitaða um að forsetinn myndi ekki opinbera skýrslurnar, en kosið hann samt sem áður.
Richard Neal, þingmaður demókrata og einn þriggja þingmanna fulltrúadeildarinnar sem hafa heimild til þess að óska eftir skattskýrslum, lagði fram formlega beiðni um aðgang að skattaskýrslum forsetans sex ár aftur í tímann. Sagði Mulvaney að um væri að ræða pólitískt ráðabrugg í boði demókrata og hafnaði alfarið tilraunum fulltrúadeildarinnar til þess að nálgast skýrslurnar. Löng hefð er fyrir því að forsetar opinberi framtöl sín en Trump er eini forseti síðari ára sem ekki hefur opinberað upplýsingarnar.
William Consovoy, lögfræðingur í lögfræðiteymi Trumps, sagði í gær að forsetinn ætti rétt á því að halda framtali sínu leyndu og að óskir Demókrata um að hann opinberaði framtölin væri „áreiti“ .
Trump hefur áður sagt að hann geti ekki opinberað upplýsingarnar þar sem að þær séu til skoðunar hjá skattayfirvöldum í Bandaríkjunum. Umrædd stofnun hefur þó sagt að hægt sé að opinbera þær þrátt fyrir að þær séu til skoðunar.
Forsetinn tjáði sig á dögunum um beiðni nefndarinnar á Twitter og sagði hann við tilefnið að ekkert sem demókratar myndu fá að sjá myndi nokkurntímann gera þá ánægða. „Þetta er hæsta stig áreitis á forseta í sögu landsins okkar!“
There is nothing we can ever give to the Democrats that will make them happy. This is the highest level of Presidential Harassment in the history of our Country!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 4, 2019