„Fólk fær alltaf smá áfall þegar það sér niðurstöðuna en svo sér það tækifærið til breytinga,“ segir Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Greenfo. Hann flytur erindi á Degi verkfræðinnar sem fram fer á Reykjavík Hilton Nordica í dag.

Erindið ber yfirskriftina Hvert er þitt raunverulega kolefnisspor? en Stefán hefur ásamt félögum sínum hjá Greenfo þróað gervigreindarhugbúnað sem reiknar kolefnisspor fyrirtækja.

„Þegar fyrirtæki reikna kolefnisspor sitt þá reikna þau bara lítinn hluta af því, kannski eldsneyti, rafmagn og úrgang, en vandamálið er að 92 prósent af kolefnissporinu koma frá virðiskeðjunni okkar,“ segir Stefán.„Það er í rauninni allt sem við kaupum, sama hvort það er tölva, þjónusta eða húsgögn, það fer bara eftir því hvernig fyrirtækið er,“ útskýrir Stefán.

Hugbúnaðurinn reiknar allt kolefnisspor fyrirtækjanna, meðal annars út frá fjárhagsbókhaldi þeirra.„Þannig vitum við nákvæmlega hvað þau eru að kaupa og svo greinir gervigreindin það og reiknar kolefnissporið út með töluverðri nákvæmni. Þá getur fyrirtækið séð nákvæmlega hvað það er sem stækkar kolefnissporið og breytt því,“ segir Stefán.

Eftir að raunverulegt kolefnisspor fyrirtækjanna hefur verið reiknað út getur Greenfo veitt ráðleggingar um það hvernig megi minnka sporið, til að mynda mælt með vörum með minna kolefnisspor.

Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkfræðingur og framkvæmdastjóri Greenfo.
Mynd/aðsend

Stefán segir það sína upplifun að flestir vilji gera betur þegar kemur að umhverfismálum, fæstir viti þó hver sé best leiðin.

„Eitt vandamálið með loftslagsmál er að þau eru í rauninni gagnamál. Fólk veit ekki hvernig það á að reikna kolefnissporið sitt eða hvernig það á að minnka það. Er kannski bara meðvitað um jarðefnaeldsneytisnotkun sína en í raun ekki allt hitt,“ segir hann.

Aðspurður hvort einstaklingar geti nýtt sér gervigreindina til að reikna sitt raunverulega kolefnisspor segir Stefán það verða hægt í framtíðinni. „Það verður hægt að yfirfæra þetta á einstaklinga á auðveldan hátt en núna einbeitum við okkur að fyrirtækjum,“ segir hann.

Stefán segir þann þátt sem komi fólki mest á óvart eftir að kolefnissporið hafi verið reiknað út vera matvæli. „Það er vel þekkt að rautt kjöt er með hæsta kolefnissporið en kolefnisspor matvæla kemur fólki mest á óvart. Þegar fólk hefur svo fengið þessar upplýsingar þá breytist kauphegðun þess hratt.“

Ásamt Stefáni flytur fjöldi fólks erindi tengd verkfræði á Degi verkfræðinnar í dag. Þar verður Teningurinn einnig afhentur í fyrsta sinn, verðlaun Verkfræðingafélags Íslands fyrir framúrskarandi verkefni á sviði verkfræði. Teninginn átti að veita í fyrsta sinn á síðasta ári en vegna Covid-19 verða veittar tvær viðurkenningar í ár, fyrir árin 2019 og 2020.