Íbúar hjúkrunarheimila geta nú fengið styrki frá Sjúkratryggingum Íslands vegna tiltekinna hjálpartækja sem áður var á hendi hjúkrunarheimila sjálfra að útvega og greiða fyrir.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins og tók breytingin gildi í dag.

Hingað til hefur kerfið virkað þannig að við komuna á hjúkrunarheimili greiðir ríkið daggjöld fyrir einstaklinga þangað en hættir að greiða fyrir allt annað líkt og hjálpartæki, næga sjúkraþjálfun, liðveislu og fleira.

Þegar einstaklingar hafa þurft á dýrum hjálpartækjum að halda hafa hjúkrunarheimilin ekki alltaf haft tök á að greiða fyrir þau sem þýðir að í sumum tilfellum hefur flutningur á hjúkrunarheimili þýtt skerðing á lífsgæðum fyrir suma.

Samkvæmt vef Stjórnarráðsins er markmið breytinganna að bæta og auðvelda aðgengi íbúa hjúkrunarheimili að hjálpartækjum og að sama skapi létta á kostnaði af rekstraraðila hjúkrunarheimila um allt að 60 milljónum króna á ári.

Þá felur breytingin meðal annars í sér að við flutning á hjúkrunarheimili getur einstaklingur haldið í þau hjálpartæki sem hann hafði fyrir flutning sem áður stóð ekki til boða.

Tækin sem breytingin nær til dæmis til eru hjálpartæki vegna öndunarmeðferðar og blóðrásarmeðferðar, stoðtæki, stómahjálpartæki, göngugrindur, hjólastólar og fylgihlutir með þeim og tölvur til sérhæfðra tjáskipta.