Eyvindur G. Gunnarsson prófessor og Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður eru taldir hæfastir þeirra 17 sem sóttu um embætti dómara við endurupptökudóm, að mati dómnefndar. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins en drög að áliti nefndarinnar hafa verið send til umsækjenda sem gefst nú færi á að gera athugasemdir áður en endanlegu áliti verður skilað til ráðherra.

Endurupptökudómur átti lögum samkvæmt að taka til starfa 1. desember síðastliðinn en dráttur varð á því að Alþingi kysi fulltrúa í dómnefnd sem metur hæfi umsækjenda og því hafa dómarar við hinn nýja dómstól ekki enn verið skipaðir.

Skipun endurupptökunefndar féll niður 1. desember og þau mál sem óskað hefur verið eftir að verði endurupptekin bíða því hins nýja dómstóls.

Fimm dómarar eiga að skipa dóminn og jafnmargir til vara. Auk þeirra tveggja dómara sem skipaðir eru að undangenginni auglýsingu og mati dómnefndar eru þrír skipaðir að undangenginni tilnefningu dómstiganna þriggja.

Eyvindur er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og er sérfræðingur á sviði fjármunaréttar. Jóhannes Karl er hæstaréttarlögmaður, einnig með sérþekkingu á svipuðum sviðum og Eyvindur.

Jóhannes gagnrýndi Sigríði Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, harðlega í umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar árið 2017, þegar skipun dómara í Landsrétt var til umfjöllunar á Alþingi. Ráðherra hafði þá, sem kunnugt er, gert tillögu til þingsins um skipun fimmtán dómara og var listi hennar töluvert frábrugðinn áliti dómnefndar um hæfustu umsækjendur. Í umsögn sinni sagði Jóhannes meðal annars að tillaga ráðherra yrði kostnaðarsöm fyrir ríkið vegna bótaréttar nokkurra umsækjenda en ekki síður vegna þess að „í uppsiglingu er hneyksli sem á eftir að valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu sjálfu“.

Hljóti Jóhannes skipun við hinn nýja dómstól er ekki ólíklegt að hann þurfi að takast á við þau vandamál sem hann spáði fyrir um í umsögn sinni, enda viðbúið að einhver eftirmál Landsréttarmálsins muni koma til meðferðar hjá hinum nýja endurupptökudómi.