Eyþór Arnalds var söngvari og bassaleikari í hinni vinsælu rokksveit Tappa Tíkarrass ásamt meðal annarra Björk Guðmundsdóttur. Eins og fram kemur í helgarviðtali Fréttablaðsins hætti hann í sveitinni 17 ára til að einbeita sér að sellóleik.

„Ég hætti til að snúa mér alfarið að klassíkinni. Þetta var akkúrat öfugt við jafnaldrana sem þarna fóru inn á sitt villtasta skeið en ég var meira á einhverju munkaskeiði,“ segir Eyþór sem lauk stúdentsprófi utanskóla frá Menntaskólanum í Hamrahlíð.

Eyþór einbeitti sér að sellóleik og tónsmíðum og tók lítinn þátt í félagslífi á menntaskólaárunum. „Það má segja að það hafi verið mikið meira rót á mér á aldrinum 13 til 16 ára. Svo var það bara sellóið. Ég fór svo meira að segja í tvö klaustur í kringum tvítugt. Mig langaði að kynnast merkilegu lífi munkanna. Ég fór í klaustur sem heitir Solemnes og er franskt móðurklaustur Clervaux-klaustursins sem Laxness dvaldi í á sínum tíma í Lúxemborg.“

Eyþór dvaldi í nokkrar vikur í klaustrinu sem er að hans sögn hvað fremst í gregor-söng. „Ég fór þangað til að syngja með munkunum. Það voru fimm messur á sólarhring og vaknað klukkan fimm og aðeins mátti tala í eina klukkustund á dag,“ rifjar Eyþór upp.