Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, hafnar því alfarið að borgarstjórnarflokkurinn sé á móti smáhýsum fyrir heimilislausa. Andstaðan í borgarráði hafi einungis snúist um Laugardalinn.

Eyþór, ásamt öðrum borgarráðsfulltrúm Sjálfstæðisflokksins, lögðust gegn áformum um að byggja smáhýsi fyrir heimilislausa í Laugardalnum. Fulltrúar meirihlutans, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, og Vinstri grænna, hafa þegar samþykkt breytingar á deiliskipulagi.

Smáhýsin sem hafa risið og eiga eftir að rísa, víða um borgina hafa mætt töluverðri andstöðu.

„Hafa ber í huga að þó þessi hús séu tíma­bundin í stað­setningu sinni þá eru þau heimili fólks, ekki dvalar­heimili eða lokuð stofnun, og þurfa að vera ná­lægt þeirri þjónustu og sam­fé­lagsinn­viðum sem borgar­búar þurfa að nýta. Ekki er auð­velt ná sátt um stað­setningu þeirra í í­búða­byggð eða blandaðri byggð og því þarf að leita á staði sem eru í námunda við sömu inn­viði á öðrum skipu­lags­svæðum,“ segir í bókun meirihlutans á fundi borgarráðs.

Eyþór hafnar því alfarið að Sjálfstæðismenn séu á móti smáhýsum fyrir heimilislausa.

„Við styðjum húsnæðisúrræði fyrir húsnæðislaust fólk, en við erum á móti því að það sé farið með íbúðir inn í Laugardalinn, hvort sem það er um að ræða smáhýsi eða stórhýsi. Nú eru líka áform um blokkir, við erum á móti því. Íþróttahreyfingin hefur viljað hafa Laugardalinn undir íþróttastarf og við erum einfaldlega sammála því.“

Vísar hann í umsögn Íþróttabandalags Reykjavíkur um tillöguna.

„Stjórn ÍBR gerir athugasemd við tillöguna og telur hana ekki til þess fallna að bæta ímynd Laugardals, þótt tímabundin sé. Laugardalurinn skuli nýttur til íþróttastarfs og annarrar starfsemi sem þar er fyrir. Stjórnin hafi fullan skilning á því að finna þurfi húsunum stað og að það sé ekki einfalt verkefni. Ekki sé þó góð niðurstaða að staðsetja húsin þar sem börn og ungmenni eiga mikið erindi. Hætta sé á því að þeim finnist návígið við tilvonandi íbúa óþægilegt og veigri sér jafnvel við að fara ein um dalinn,“ segir í umsögn ÍBR.

Eru þið á móti smáhýsum fyrir heimilislausa?

„Alls ekki. Við studdum þessa leið. Það skiptir bara máli hvernig það er gert. Íbúðarhús eiga ekki heima í Laugardalnum, hvorki smáhýsi né blokkir,“ segir Eyþór. „Ég var sjálfur í því að setja upp aðstöðu fyrir heimilislausa á Selfossi, í nágrenni við húsið mitt.“