Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segist ekki hafa aukið við hlut sinn í Árvakri en hann mætti í þjóðmálaþáttinn Sprengisand á Bylgjunni í morgun og ræddi viðskipti sín í félaginu og hlutverk stjórnmálamanna og tengsl við fjölmiðla.
Í þættinum spurði Kristján Kristjánsson, þáttastjórnandi, Eyþór meðal annars að því hvort hann hefði borgað fyrir hlut sinn í fyrirtækinu í ljósi fréttar Stundarinnar af því að útgerðarfélagið Samherji hafi afskrifað meira en helming af kröfum sínum á hendur eignarhaldsfélags hans, vegna hlutabréfaviðskipta í Morgunblaðinu árið 2017.
Í fréttinni kemur fram að ljóst sé út frá ársreikningum þeirra félaga sem eigi hlut í viðskiptunum að eignarhaldsfélag Eyþórs muni aldrei borga Samherja þá fjármuni sem ársreikningar félags hans sýna að hann hafi skuldbundið sig til að greiða fyrir hlutabréfin í Morgunblaðinu.
Borgaðiru fyrir Samherjahlutinn?
„Já já, það er greitt fyrir hann. Hann er bara í félagi og þau viðskipti eru búin,“ svarar Eyþór honum þá.
„Þetta er þannig að ég sjálfur, eða félagið sem ég er með, hefur líka fært niður hlutinn. Það er alveg klárt að þessi taprekstur sem hefur verið í gangi, hefur verið mikill, og þess vegna mjög umdeilanlegt hvers virði þessi hlutur er. Þú þekkir það með fjölmiðla, að þeir náttúrulega berjast í bökkum og maður vissi að þetta er áhætta, það er bara þannig.“
Ertu búinn að borga fyrir þetta? Geturu borgað fyrir þetta á næsta ári?
„Þetta verður bara í lagi. Við skulum orða það þannig,“ svarar Eyþór honum þá. „Ég er búinn að vera að draga mig út úr mörgum fyrirtækjum og held því þannig, það er bara þannig. Maður fer hins vegar með reynslu úr viðskiptum í stjórnmálin. Ég vara við að við séum með einhæfa stjórnmálastétt sem er bara þannig að menn hafa ekki unnið og hafi bara stakkað upp stólum.“
Aðspurður um hvar línurnar séu hvað varðar eignarhluti stjórnmálamanna í fjölmiðlum, segir Eyþór ljóst að hann hafi sagt sig úr stjórn félagsins um leið og ljóst var að hann væri á leið í framboð. Stjórnmálamenn ættu ekki að hafa nein afskipti af slíku.
„Þeir eiga ekki að hafa nein afskipti. Þess vegna hef ég ekki haft nein afskipti af hlutunum. Ég held áfram að draga mig úr þessu, það er bara þannig.“