Ey­þór Arnalds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík, segist ekki hafa aukið við hlut sinn í Ár­vakri en hann mætti í þjóð­mála­þáttinn Sprengi­sand á Bylgjunni í morgun og ræddi við­skipti sín í fé­laginu og hlut­verk stjórn­mála­manna og tengsl við fjölmiðla.

Í þættinum spurði Kristján Kristjáns­son, þátta­stjórnandi, Ey­þór meðal annars að því hvort hann hefði borgað fyrir hlut sinn í fyrir­tækinu í ljósi fréttar Stundarinnar af því að út­gerðar­fé­lagið Sam­herji hafi af­skrifað meira en helming af kröfum sínum á hendur eignar­halds­fé­lags hans, vegna hluta­bréfa­við­skipta í Morgun­blaðinu árið 2017.

Í fréttinni kemur fram að ljóst sé út frá árs­reikningum þeirra fé­laga sem eigi hlut í við­skiptunum að eignar­halds­fé­lag Ey­þórs muni aldrei borga Sam­herja þá fjár­muni sem árs­reikningar fé­lags hans sýna að hann hafi skuld­bundið sig til að greiða fyrir hluta­bréfin í Morgun­blaðinu.

Borgaði­ru fyrir Sam­herja­hlutinn?

„Já já, það er greitt fyrir hann. Hann er bara í fé­lagi og þau við­skipti eru búin,“ svarar Ey­þór honum þá.

„Þetta er þannig að ég sjálfur, eða fé­lagið sem ég er með, hefur líka fært niður hlutinn. Það er alveg klárt að þessi tap­rekstur sem hefur verið í gangi, hefur verið mikill, og þess vegna mjög um­deilan­legt hvers virði þessi hlutur er. Þú þekkir það með fjöl­miðla, að þeir náttúru­lega berjast í bökkum og maður vissi að þetta er á­hætta, það er bara þannig.“

Ertu búinn að borga fyrir þetta? Geturu borgað fyrir þetta á næsta ári?

„Þetta verður bara í lagi. Við skulum orða það þannig,“ svarar Ey­þór honum þá. „Ég er búinn að vera að draga mig út úr mörgum fyrir­tækjum og held því þannig, það er bara þannig. Maður fer hins vegar með reynslu úr við­skiptum í stjórn­málin. Ég vara við að við séum með ein­hæfa stjórn­mála­stétt sem er bara þannig að menn hafa ekki unnið og hafi bara stakkað upp stólum.“

Að­spurður um hvar línurnar séu hvað varðar eignar­hluti stjórn­mála­manna í fjöl­miðlum, segir Ey­þór ljóst að hann hafi sagt sig úr stjórn fé­lagsins um leið og ljóst var að hann væri á leið í fram­boð. Stjórn­mála­menn ættu ekki að hafa nein af­skipti af slíku.

„Þeir eiga ekki að hafa nein af­skipti. Þess vegna hef ég ekki haft nein af­skipti af hlutunum. Ég held á­fram að draga mig úr þessu, það er bara þannig.“