Eyþór Arnalds, oddviti borgarsjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor. Hann tilkynnti þetta á Facebook síðu sinni skömmu eftir miðnætti.

Hann mun þó gegna skyldum sínum út kjörtímabilið en segist munu láta af þátttöku í stjórnmálum að því loknu.

„Ákvörðun mín er tekin af persónulegum ástæðum, ekki pólitískum. Ég er þess fullviss að Sjálfstæðisflokkurinn mun vinna góðan sigur í vor og þeir sem þekkja mig vita að ég óttast ekki niðurstöður í nokkru prófkjöri. Eins er rétt að árétta að ákvörðunin er algjörlega óháð því hvaða fyrirkomulag sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósa að viðhafa við val á framboðslista eða hvaða einstaklingar munu gefa kost á sér í því vali,“ segir Eyþór í færslunni.

Í síðustu viku ákvað stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, að fara skuli fram leiðtogaprófkjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Aðdragandinn og ákvörðunin sjálf hefur valdið skjálfta í flokknum, enda hafði áður verið ákveðið að valið yrði á lista í Reykjavík með hefðbundnu prófkjöri, sem fara átti fram 26. febrúar næstkomandi.

Eyþór Arnalds fagnaði hinni nýju ákvörðun um leiðtogaprófkjör en borgarfulltrúinn, Hildur Björnsdóttur, sem lýst hefur yfir framboði til oddvita í borginni lýsti óánægju með hina nýju ákvörðun.

Sjálfstæðismenn sem Fréttablaðið ræddi við hafa þó ekki talið ólíklegt að sjálft fulltrúaráðið muni fella þessa ákvörðun og staðfesta ákvörðun um hefðbundið prófkjör, en til að staðfesta ákvörðun um leiðtogaprófkjör þarf aukinn meirihluta í ráðinu.

Ætlar að sinna sjálfum sér

Eyþór segist hafa komist að þeirri niðurstöðu að hann vilji sinna sjálfum sér, heimili sínu og hugðarefnum.

„Nú er það annarra að taka við keflinu í því boðhlaupi sem pólitíkin er. Sjálfstæðisflokkurinn býr að því að þar er stór og breið forystusveit og enginn hörgull á fólki til þess að taka við því og leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs,“ segir Eyþór.

Þá þakkar Eyþór stuðninginn og óskar öllum gleðilegra jóla og friðar og farsældar á nýju ári.