Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, segir Eyþór Laxdal Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, nota borgarbúa sem fallbyssufóður fyrir oddvita í vasa Samherja til þess að koma í veg fyrir að rætt sé um spillingu og hagsmuni af alvöru. Þetta sagði hún í ræðu sinni á borgarstjórnarfundi í kvöld þar sem rætt var um deiliskipulag við Stekkjarbakka.

Dóra Björt velti fyrir sér hvers vegna Sjálfstæðismenn væru nú með „óvænt uppþot“ í lok skipulagsferlisins, með tillögu sinni um íbúakosningu varðandi deiliskipulag Stekkjarbakka.

„Miskunnsamir Samherjar á útopnu að dreifa athyglinni frá stóru spillingarmáli.“

„Af hverju núna? Af hverju ekki þegar þetta var ákveðið í aðalskipulagi? Af hverju ekki þegar vilyrðið var samþykkt? Af hverju ekki áður en stjórnvaldsákvörðunin var tekin um að staðfesta deiliskipulagið? Af hverju núna þegar það eru bara formlegheit eftir?“

Hún spurði Sjálfstæðismenn, ef þeim væri svo umhugað um lýðræðið, hvers vegna þeir virði ekki niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá og veiti þjóðinni málskotsrétt og innleiði náttúruauðlindaákveðið þar sem kveðið er á um að þjóðin eigi auðlindirnar og eigi að fá greiddan fullan arð af þeirri auðlind.

„Vandræðalega augljóst“

Hún segir borgarfulltrúa Sjálfstæðismann hafa lagt fram tillöguna rétt fyrir skilafrest „til þess að reyna að skrapa yfir eigin vesen í von um að borgarbúar bíti á agnið.“

Hún segir tillöguna hafa verið meingallaða og greinilega gerð í flýti. Flokkar minnihlutans með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar hafi sjálfir skilað breytingartillögu við eigin tillögu. „Þetta er vandræðalegt. Og þetta er augljóst. Vandræðalega augljóst,“ sagði Dóra.

„Miskunnsamir Samherjar á útopnu að dreifa athyglinni frá stóru spillingarmáli. Svo mikil er örvæntingin að ekki er einu sinni hægt að sinna formsatriðum rétt. Leikritið skal af stað.“ Þá ræddi Dóra Björt um tengingu Eyþórs Arnalds við Samherja.

„Sama fyrirtæki sem hefur nú orðið uppvíst að því að múta stjórnmálamönnum í öðru landi virðist hafa gefið stjórnmálamanni sem hér er í þessum sal fullt af peningum,“ sagði Dóra Björt. Stundin fjallaði í síðustu viku um að félag Samherja á Kýpur sé óbeinn lánveitandi hlutabréfa Eyþórs Arnalds í Morgunblaðinu. Samherji hafi afskrifað stóran hluta af undirliggjandi láninu til félags borgarfulltrúans.

Sjálfstæðismenn vildu veg og æfingasvæði

„Svona hagsmunabrask þykir kannski daglegt brauð í Sjálfstæðisflokknum, en ekki hér.“

Dóra Björt er uppalin í Elliðaárdalnum og segir að enginn staður í borginni sé henni meira kær. Henni hafi í fyrstu ekki litist á blikuna um að byggja ætti í Elliðaárdalnum.

„Var nú búið að draga aftur fram tillögu Fylkis og Björns Gíslasonar, núverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um að byggja á hólmanum í miðjum dalnum og ógna dýralífi eins og hann lagði til hér um árið? Þess borgarfulltrúa sem sat þar til fyrir skömmu á sama tíma og hann var formaður Fylkis í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar og tók ákvarðanir um önnur íþróttafélög sem hann stóð í beinni samkeppni við. Svona hagsmunabrask þykir kannski daglegt brauð í Sjálfstæðisflokknum, en ekki hér,“ sagði Dóra Björt og bætti við að sem betur fer væri ekki um þá tillögu að ræða heldur Stekkjarbakkann. Dóra Björt benti á að stjórn Sjálfstæðisflokksins hafi fyrir árið 2013 gert ráð fyrir að leggja þar veg í stað þess að hafa þar græna starfsemi.

Margar góðar athugasemdir frá almenningi

Slegið var á allar helstu áhyggjur hennar um lýsingu og hæð byggingar eftir að hún kynnti sér betur verkefnið.

„En ef það er mikill vilji almennings að fá að kjósa um einmitt þessa hugmynd að deiliskipulagi þá er sjálfsagt að gera það“

„Settar voru kvaðir um miklar takmarkanir á lýsingu sem gerir ráð fyrir að mest öll lýsing fari niður um klukkan 18 og að lýsingin bæti ekki við núverandi ljósmengun. Þótti mér byggingarnar standa óþarflega mikið upp og brugðið var á það ráð að lækka þær verulega í landslaginu og fækka þeim. Efsti punkturinn er um 9 metrar sem er lægra en mörg tré dalsins. Að auki komu fram margar góðar athugasemdir frá almenningi sem tekið var tillit til,“ benti Dóra Björt á.

Hún segir sjálfsagt að styðja vilja almennings.

„En ef það er mikill vilji almennings að fá að kjósa um einmitt þessa hugmynd að deiliskipulagi þá er sjálfsagt að gera það. En það skal vera eftir gagnsæjum ferlum lýðræðisins á forsendum íbúanna og að þeirra frumkvæði. Lög kveða á um möguleika á íbúakosningum að frumkvæði kjósenda.“

Hér fyrir neðan má sjá ræðu Dóru í heild sinni.