Ey­þór Arnalds, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík, til­kynnti í dag á Face­book-síðu sinni að hann ætli ekki að gefa kost á sér til nýs ritara Sjálf­stæðis­flokksins. Kosið verður um það á flokks­ráðs­fundi flokksins sem fer fram næstu helgi. Ey­þór segir að hann ætli frekar að ein­beita sér að því hlut­verki sem hann hafi tekið að sér í fyrra í for­ystu flokksins í borginni.

Í færslunni sem Ey­þór birti fyrr í dag segir hann að fyrir honum snúist hug­sjón flokksins um til­veru­rétt allra og frelsi ein­stak­lingsins. Hann hafi gefið kost á sér til að leiða flokkinn í borginni snemma á síðasta ári og hafi til þess fengið skýrt um­boð.

„Í borgar­stjórnar­kosningum fengum við yfir 30% at­kvæða og erum aftur stærsti flokkurinn í Reykja­vík, í fyrsta sinn í tólf ár. Við ætlum að ná enn betri árangri og auka við fylgi flokksins í næstu kosningum,“ segir Ey­þór.

Hann segir að eini val­kosturinn gegn nú­verandi meiri­hluti vinstri­manna í Reykja­vík sé Sjálf­stæðis­flokkurinn.

„Vinstri­flokkarnir hafa leikið borgar­búa grátt í sam­göngu­málum, hús­næðis­málum og með æ hækkandi sköttum og gjöldum. Við, Sjálf­stæðis­menn, munum breyta þessu,“ segir Ey­þór.

Ey­þór segir að nauð­syn­legt sé að nýjum ritara verði falið að efla tengsl á milli gras­rótar og for­ystu, að vinna að því að sem sam­einar sjálf­stæðis­menn og að leita sátta í á­greinings­málum.

„ Þessi veg­ferð verður krefjandi og út­heimtir tíma og at­hygli þess sem mun gegna því,“ segir Ey­þór.

Hann segir að hann sé þakk­látur því trausti sem gras­rótin í flokknum hafi sýnt honum en að hann telji að það gagnist borgar­búum best að hann sé ó­skiptur í því hlut­verki sem hann tók að sér í fyrra.

„Ég er þakk­látur fyrir það traust og þá vel­vild sem gras­rótin í flokknum um allt land hefur sýnt mér. Ég hef fengið fjölda sím­tala og hvatningu frá traustu Sjálf­stæðis­fólki. Það mikla verk­efni að leiða Sjálf­stæðis­flokkinn á­fram og upp á við, er þess eðlis að það krefst ein­beitingar og fullrar at­hygli.

Ég tel að það gagnist borgar­búum best að ég sé ó­skiptur í því verki sem ég tók að mér á síðasta ári. Því hef ég á­kveðið að gefa ekki kost á mér til em­bættis ritara Sjálf­stæðis­flokksins.“

Til­kynningu Ey­þórs má lesa hér að neðan í heild sinni.

Fyrr í dag var greint frá því að Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna, ætli heldur ekki að gefa kost á sér. En hún hafði áður verið orðið við ritarann.

Þau sem hafa gefið kost á sér eru þau Ás­laug Hulda Jóns­dóttir, bæjar­full­trúi flokksins í Garða­bæ, og Jón Gunnars­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og fyrr­verandi sam­göngu­ráð­herra.

Við hlutverk ritara hafa einnig þau Hildur Björns­dóttir og Kristján Þór Magnús­son verið orðuð við hlut­verk ritara en hafa þó ekki gefið form­lega kost á sér.