Eystrasaltslöndin, Eistland, Lettland og Litháen opnuðu landamærin sín á milli í nótt. Íbúar svæðisins geta nú ferðast frjálst á milli landanna þriggja.

Juri Ratas, forsætisráðherra Eistlands sagði í Twitter færslu, að þetta væri stórt skref í áttina að eðlilegu lífi. Samkomulag um að opna landamærin náðist á milli Eystrasaltslandanna þann 6. maí síðastliðinn.

Utanaðkomandi þurfa hins vegar enn þá að fara í tveggja vikna sóttkví.

Fjöldi smita í Eystrasaltslöndunum hefur farið lækkandi. Ekkert landanna hefur tilkynnt um fleiri en fimm ný smit frá því á þriðjudaginn, samkvæmt fréttastofu Reuters.

Alls hafa 62 einstaklingar látist í Eistlandi, 54 í Litháen og 19 í Lettlandi. Alls hafa því 135 einstaklingar látið lífið í faraldrinum í löndunum þremur.

Útlitið er því fremur bjart á Eystrasaltslöndunum og er það grundvöllurinn fyrir ákvörðuninni um að opna landamærin.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa hvatt aðildarríki til að slaka á aðgerðum og takmörkunum vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Ástralía og Nýja-Sjáland vinna einnig að því að opna landamærin sín á milli.