Í morgun opnuðu Eistland, Lettland og Litháen landamæri sín á milli. Þetta er fyrsta afmarkaða ferðasvæðið sem sett hefur verið á í Evrópu, síðan þjóðir hófu að loka landamærum sínum vegna kórónaveirunnar.

Samkvæmt nýju reglunum mega þeir sem ekki hafa ferðast utan Eystrasaltsríkjanna undanfarnar tvær vikur, ferðast frjálst á milli landanna þriggja, að því gefnu að þeir hafi ekki greinst með smit eða verið í návígi við smitaðan einstakling. Aðrir þurfa að sæta tveggja vikna sóttkví við komu til landanna.

Einnig hefur verið leitað til Finnlands og Póllands um aðild að ferðasvæðinu.

„Eystrasalts-ferðasvæðið gefur fyrirtækjum tækifæri til opna á nýjan leik og fólki vonarglætu um að lífið sé að komast aftur í eðlilegt horf,“ sagði Saulius Skvernelis, forsætisráðherra Litháens, í yfirlýsingu.

Eystrasaltslöndin hafa sloppið betur frá faraldrinum en mörg önnur lönd Evrópu. Færri en 150 hafa dáið af völdum kórónaveirunnar í löndunum þremur miðað við tölur John Hopkins-háskóla. Hafa þau nú þegar slakað á aðgerðum vegna faraldursins.