Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir nýmyndaðan meirihluta samkomulag um óbreytt ástand. „Ég sé nú fyrst og fremst fyrir mér að þessi meirihluti fari frá. Það gæti vel verið að hann leggi okkur lið í þeirri vegferð, óvart. Aðalmálið hjá okkur er að við munum hlusta á fólkið í borginni og veita ráðhúsinu aðhald,“ segir Eyþór í samtali við Fréttablaðið í dag.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Vinstri grænna og Pírata undirrituðu meirihlutasamkomulag í Breiðholti í morgun. Fram kom á blaðamannafundi meirihlutans að Dagur B. Eggertsson verði áfram borgarstjóri Reykjavíkur.

Gamli meirihlutinn „viðreistur“

Sjálfstæðisflokkurinn vann kosningasigur í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Hlaut flokkurinn rúmlega 30 prósent atkvæða og átta borgarfulltrúa, og er því stærsti flokkurinn í borgarstjórn. Eyþór segir að nýi meirihlutinn sé ekki nýr. „Hann er nú í raun og veru gamall; uppreistur eða viðreistur. Viðreistur meirihluti féll og fékk bara rúmlegan þriðjung atkvæða en fær þarna stuðning frá Viðreisn, sem kemur í stað Bjartar framtíðar. Þetta er náttúrulega ekki það sem úrslit kosninganna báru með sér, það eru engar breytingar þarna,“ segir Eyþór í samtali við Fréttablaðið.

Sjá einnig: Bílaeigendur borga meira en betur stutt við hjólafólk

Meirihlutasáttmálinn var birtur á heimasíðu Reykjavíkurborgar í morgun. „Ég er búinn að renna í gegnum samninginn. Það er ekki mikið af skýrum markmiðum, þetta er frekar loðið og virðist eiga að gerast á næsta kjörtímabili frekar en þessu. Það er ýmislegt sem á að taka gildi annaðhvort í lok kjörtímabils eða samhliða einhverju sem ekki er í hendi,“ segir Eyþór. „Þetta er aðallega samkomulag um óbreytt ástand,“ bætir hann við.

Ætlar að veita öflugt aðhald

Sjálfstæðisflokkurinn, Flokkur fólksins, Sósíalistaflokkurinn og Miðflokkurinn mynda minnihluta borgarstjórnar. „Þessir fjórir flokkar sem saman eru með ellefu borgarfulltrúar munu allir beita sér og veita heilbrigt og öflugt aðhald. Ég held að þetta sé óvenju öflug stjórnarandstaða,“ segir Eyþór. 

Borgarfulltrúar Sósíalistaflokksins gáfu út yfirlýsingu á meðan viðræður um myndun meirihluta stóðu yfir, þar sem þeir segjast ætla styðja þau mál sem meirihlutinn ber á borð, séu þau í samræmi við áherslur sósíalista í kosningabaráttunni. 

„Ég held það hafi komið mörgum á óvart hvað þau fá lítið fyrir sinn snúð. Ég held að margir kjósendur Viðreisnar hafi ekki séð fyrir sér óbreytt ástand,“ segir Eyþór.