Vestmannaeyjavöllur verður tekinn inn í hinn vinsæla tölvuleik Microsoft Flight Simulator. Þetta var tilkynnt á miðvikudag en einnig munu bætast við flugvellirnir í Mumbai á Indlandi og Davao á Filippseyjum. Í tilkynningunni segir að Vestmannaeyjavöllur sé „lítill en áhugaverður völlur“.

Leikurinn fagnar nú 40 ára afmæli, en upprunalega kom hann út sem Flight Simulator 1.0 árið 1982. Það var hinn bandaríski Bruce Artwick sem hannaði leikinn fyrir IBM og hafa komið 14 uppfærslur á honum síðan þá, sú nýjasta frá árinu 2020.

Alls eru 37 þúsund flugvellir í leiknum en aðeins í kringum 40 hafa fengið sérstaka meðferð með auknum smáatriðum hjá hönnuðum og bætist Vestmannaeyjavöllur í þann hóp. Einn íslenskur flugvöllur var fyrir í þeim hóp, flugvöllurinn á Ísafirði.